Þjóðleikhúsið og norska sendiráðið standa fyrir málþingi um Heddu Gabler eftir Henrik Ibsen í Kassanum í Þjóðleikhúsinu á sunnudaginn kl. 15. Málþingið er haldið í tengslum við sýningu leikhússins á verkinu. Frá því að verkið var fyrst sýnt árið 1891 hafa fjölmargar frægar sýningar verið á því víða um heim, og það er annað af mest leiknu leikritum skáldjöfursins Henriks Ibsens. Nú tekst Kristín Eysteinsdóttir leikstjóri og samverkafólk hennar á við þetta víðfræga leikrit Ibsens í sýningu Þjóðleikhússins.

Hedda Gabler er ein þekktasta kvenpersóna leikbókmenntanna. Hún hefur í gegnum tíðina vakið sterk viðbrögð hjá áhorfendum og um leið margvíslegar spurningar. Er Hedda Gabler fórnarlamb aðstæðna sinna, skarpgreind og viljasterk hetja sem berst gegn ofurvaldi samfélagsins eða er hún persónuleikatruflaður einstaklingur sem svífst einskis til að svala löngun sinni í vald yfir öðrum manneskjum?

Á málþinginu mun Ba Clemetsen, stjórnandi Ibsenhátíðarinnar í Noregi, fjalla um leikritið í erindi sínu ”Hedda Gabler World wide – sett med norske øyne”. Að því loknu verða  pallborðsumræður um sýninguna og verkið. Þátttakendur í umræðum eru Kristín Eysteinsdóttir, Bjarni Jónsson, þýðandi verksins og dramatúrg sýningarinnar og Ilmur Kristjánsdóttir sem fer með titilhlutverkið.

Fyrirlestur Clemetsen verður á norsku, en umræður verða á ensku og íslensku. Málþingið er öllum opið og aðgangur er ókeypis.

Leikstjóri sýningarinnar er sem fyrr segir Kristín Eysteinsdóttir, Bjarni Jónsson er þýðandi og dramatúrg, Finnur Arnar Arnarson hannar leikmynd, Filippía I. Elísdóttir hannar búninga, Barði Jóhannsson samdi tónlist og Halldór Örn Óskarsson sá um lýsingu.

Leikarar í sýningunni eru Ilmur Kristjánsdóttir, Valur Freyr Einarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Kristbjörg Kjeld, Brynhildur Guðjónsdóttir, Eggert Þorleifsson og Harpa Arnardóttir

{mos_fb_discuss:2}