Föstudaginn 8. mars frumsýndi Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja leikritið „Nanna systir“ eftir Kjartan Ragnarsson og Einar Kárason. UMFG hefur um áratugaskeið haldið úti sérlega kraftmiklu og metnaðarfullri leiklistarstarfsemi á svæðinu en frá árinu 2010 hefur félagið rekið sérstaka leikdeild. Leikstjóri Nönnu systur er hinn vel þekkti leikari og Spaugstofumaður Örn Árnason en sýnt er í félagsheimilinu Árnesi.

Nanna systir er eftir Ragnar Kjartansson og Einar Kárason. Þetta grátbroslega drama frá 1996 gerist í litlu sjávarþorpi úti á landi. Til stendur að setja upp leikrit í stórri skemmu, en ekki er allt með felldu í undirbúningnum þar sem uppákomur liðinna stunda setja strik í reikninginn. Við það reynir heldur betur á samskiptahæfni fólks, persónuleiki afhjúpast og mannlegir brestir koma í ljós. Hvernig fólki tekst að gera upp málin er ekki fyrirséð – en svona er lífið!

Ungmennafélag Gnúpverja hefur í rúm 100 ár staðið fyrir leiksýningum á verkum eftir ýmsa höfunda. Fyrstu leiksýningarnar voru í baðstofum í sveitinni en eftir að Ásaskóli var byggður 1923, var æft og leikið þar. Síðustu 50 árin hefur félagsheimilið Árnes verið heimili leikstarfseminnar. Leikdeild var stofnuð innan Ungmennafélagsins árið 2010 og er Nanna systir fimmta sýningin sem sett hefur verið upp síðan.
Næsta sýningar eru fim. 21. og fös. 22. mars. Hægt er að panta miða í síma. 869 1118 eða gylfsi1ig@gmail.com. Nánari upplýsingar um sýnignuna er að finna á Facebooksíðu leikdeildarinnar.