Senuþjófurinn, nýtt leikhús í hjarta Garðabæjar, er í burðarliðnum og sýnir laugardaginn 30. mars sviðsetta leiklestra á þremur stuttleikritum eftir Samuel Beckett.

Þar stíga á svið þaulreyndir leikarar, Arnar Jónsson, Kristbjörg Kjeld, Pálína Jónsdóttir og Þórunn Magnea Magnúsdóttir, auk Guðrúnar Kristinsdóttur, sem nam leiklist í París en hefur lítið sést á sviði hérlendis.

Leikritin sem sýnd verða eru Ekki ég, Fótatak og Ein ræða. Efnislega tengjast verkin innbyrðis og þótt ólík séu lýsa þau öll, að hætti Becketts, tilvist og ævi nútímamannsins á tragíkómískan hátt. Trausti Ólafsson hefur þýtt leikritin og leikstýrir þeim. Sýning leikritanna hefst klukkan 16 og lýkur um um klukkan 18.

Senuþjófurinn er til húsa að Garðatorgi í sal þar sem fyrrum var rekin líkamsræktarstöð sem gekk undir nafninu Betrunarhúsið. Aðgöngumiðar verða seldir við innganginn.