Föstudaginn 27. febrúar frumsýnir Leikfélag Reykjavíkur verk svissneska leikskáldsins Friederich Dürrenmatt, Milljarðamærin snýr aftur á Stóra sviðinu. Sagan gæti hæglega verið sprottin úr íslenskum samtíma en verkið er skrifað fyrir meira en hálfri öld. Íbúar ónefnds bæjarfélags í efnahagshruni eygja vonarglætu um endurreisn en hún felur í sér blóðuga fórn. Leikstjórn er í höndum Kjartans Ragnarssonar en nokkuð er um liðið frá því að hann leikstýrði síðast hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

Þetta magnaða verk Friedrich Dürrenmatts var frumflutt árið 1956 og er löngu orðið sígilt. Það er reglulega sett upp víða um heim og hefur verið uppspretta dansverka, söngleikja og ópera enda sagan einkar mögnuð og krassandi. LR sýndi leikritið árið 1965, þá undir titlinum Sú gamla kemur í heimsókn.

Í smábæ sem muna má fífil sinn fegurri, fyllast fátækir íbúarnir mikilli eftirvæntingu þegar Milljarðamærin snýr aftur. Hún hafði löngu áður hrökklast burt úr bænum með smán en nú eru auðæfi hennar gríðarleg og bæjarbúar hugsa sér gott til glóðarinnar. Hún lofar þeim milljörðum að uppfylltu einu skilyrði að þeir veiti henni réttlæti, en það felur í sér blóðuga fórn. Í fyrstu er tilboðið dæmt siðlaust en samt sem áður heilla peningarnir. Íbúarnir fara smám saman að eyða og spenna líkt og þeir eigi von á batnandi fjárhag, því það þarf bara einn að taka af skarið. Er siðferðið falt fyrir peninga? Og getum við elskað og hatað á sama tíma?

Það eru þau Jóhann Sigurðarson og Sigrún Edda Björnsdóttir sem leika aðalhlutverkin og Hilmir Snær Guðnason verður í hlutverki allra þriggja fyrrverandi eiginmanna Milljarðamærinnar. Alls taka um tuttuga manns þátt í sýningunni, leikarar og tónlistarmenn. Leikmyndahönnuður og höfundur leikgerðar ásamt Kjartani er Gretar Reynisson. Gísli Rúnar Jónsson þýddi.

{mos_fb_discuss:2}