Leikfélagið Peðið setur upp nýja jólaleikritið Tröllaperu á Grand rokk. Frumsýnt verður 1. desember klukkan 16. Leikritið er eftir Jón Benjamín Eiríksson og leikstjóri er Guðjón Sigvaldason. Peðið er áhugaleikfélag en hefur innan sinna vébanda menntaða leikara og leikstjóra auk þaulvanra tónlistarmanna. Leikverkin eru fyndin og skemmtileg og uppfull af skemmtilegum lögum.

Tröllapera gerist á heimili Grýlu og Leppalúða. Allir eru í hátíðarskapi, enda jólin í nánd og fyrsti jólasveinninn á leið til byggða þá um nóttina. Þó persónur séu tröllakyns hrjá þau sömu vandamál og okkur hin. Leppalúði laumast til að hringja í sálfræðinginn sinn, Grýla á erfitt með kenjótta krakka, Afi gamli situr uppi á þeim hjónum og hefur gert síðan hann kom í heimsókn fyrir 80 árum og er tengdasonurinn ekki par ánægður með það.

Gilitrutt og Skrápur koma í kvöldmat og eldar Grýla dýrindis bóndasteik fyrir þau, með íslensku hráefni að sjálfsögðu og Leppalúði býður upp á úrval innlendra drykkja með gleðikokteilnum sínum. Leppur býr sig til byggða og þegar hann birtist skýtur hann mjög skökku við aðra heimilismenn, enda er hann kominn í rauðan og glæsilegan jólasveinabúning og skín af honum. Gestir og heimafólk spjalla um heima og geyma, nýjustu græjur, gamlar hefðir og daginn og veginn. Þau eru tröll, en þó búin mannlegum eiginileikum með öllum þeim kostum og löstum sem þar búa, sjónvarpsglápi og söng og hljóðfæraleik.

Frumsýnt verður laugardaginn 1. des. klukkan 16. Annars verða sýningar sem hér segir: Sun. 2.12 kl. 20, fim. 6.12. kl. 20, fös. 7.12. kl. 20, lau. 8.12. kl. 14 & 17, sun. 9. 12. kl. 17.

Á myndinni eru Björgúlfur Egilsson, höfundur tónlistar til vinstri, Guðjón Sigvaldason leikstjóri fyrir miðju og Jón Benjamín Einarsson höfundur leikritsins til hægri.