Leikfélag Selfoss stendur fyrir leiksmiðju í aðdraganda uppsetningar leikárið 2019-2020.
Að þessu sinni er það hinn margrómaði Rúnar Guðbrandsson sem mætir vaskur til leiks. Rúnar hefur komið áður við sögu Leikfélags Selfoss því árið 2017 leikstýrði hann Kirsuberjagarðinum eftir Chekov og árið 2012 Sólarferð eftir Guðmund Steinsson. Rúnar hefur sett upp fjölda sýninga hjá sjálfstæðum atvinnuleikhúsum og áhugaleikfélögum um land allt, auk þess kennir hann við Kvikmyndaskóla Íslands.
Leiksmiðjan er opin öllum áhugasömum 16 ára og eldri, hvort sem áhuginn liggur á sviði leiklistar eða á bakvið tjöldin. Að vanda er tekið sérstaklega vel á móti nýju fólki sem hefur áhuga á að bætast í hina sívaxandi leikhúsfjölskyldu á Selfossi eða vill einfaldlega kynna sér starf leikfélagsins betur.
Leiksmiðjan verður haldin í Litla leikhúsinu við Sigtún dagana 26.-27. október frá kl. 13:00 – 18:00.