Um næstu helgi, 26. og 27. janúar, heldur Þjóðleikhúsið í leikferð norður yfir heiðar með Með fulla vasa af grjóti. Í verkinu kynnumst við fjölda skrautlegra og skemmtilegra persóna. Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson fara með öll fjórtán hlutverkin í sýningunni, og bregða sér jafnt í gervi karla sem kvenna, og ungra sem aldinna. Alls verða tvær sýningar í Samkomuhúsinu á Akureyri, kvöldsýning á laugardeginum en á sunnudeginum er sýning kl. 16.

Með fulla vasa af grjóti var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í árslok 2000 og fékk þá frábærar viðtökur. Sýningar urðu alls 180 og yfir 40.000 manns sáu sýninguna. Í haust var sýningin síðan tekin upp aftur eftir tæplega 10 ára sýningahlé. Hlutverkin í sýningunni eru öll leikin af þeim Stefáni Karli Stefánssyni og Hilmi Snæ Guðnasyni. Við endurupptöku í haust sló sýningin strax rækilega í gegn og uppselt var á allar sýningar. Þurfti að gera sýningahlé vegna anna leikaranna en nú snúa þeir aftur og munu hefja sýningar að nýju í Samkomuhúsinu á Akureyri um næstu helgi.  Sýningar hefjast síðan að nýju á Stóra sviði Þjóðleikhússins þann 31. janúar.

Aðalpersónur verksins eru tveir náungar sem ráða sig sem aukaleikara í Hollywoodkvikmynd sem verið er að taka upp í nágrenni lítils þorps á vesturströnd Írlands. Fljótlega setur starfsemi kvikmyndafyrirtækisins allt á annan endann, og von bráðar eiga sér stað árekstrar á milli lífs Hollywoodstjarnanna og hversdagsleika sveitafólksins. Þessir árekstrar eru margir hverjir afar spaugilegir, en þeir geta einnig haft alvarlegar afleiðingar. Í verkinu kynnumst við fjölda skrautlegra og skemmtilegra persóna. Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson fara með öll fjórtán hlutverkin í sýningunni, og bregða sér jafnt í gervi karla sem kvenna, og ungra sem aldinna.