Á fimmtugustu sýningu á Dýrunum í Hálsaskógi nú um helgina var fimm listamönnum veittur styrkur úr Egnersjóðnum. Styrkþegar að þessu sinni eru þau Ágústa Skúladóttir, leikstjóri sýningarinnar, Jóhannes Haukur Jóhannesson sem leikur Mikka ref, Friðrik Friðriksson sem fer um þessar mundir með hlutverk Karíusar í Karíusi og Baktusi í Kúlunni, Bernd Ogrodnik brúðulistamaður og Trygve J. Eliassen leikmunameistari Þjóðleikhússins. Hver þessara listamanna hefur með störfum sínum í gegnum tíðina átt ríkan þátt í að auðga barnaleikhúsmenningu landsins.

Egnersjóður er fjármagnaður með höfundalaunum fyrir sýningar á verkum Thorbjörns Egners á Íslandi, en hann gaf árið 1975 Þjóðleikhúsinu sýningarrétt og höfundalaun verka sinna hér á landi í þessu skyni.

Á sama tíma og styrkirnir voru afhentir fékk Freyja Birgisdóttir, nemandi í 4. bekk í Melaskóla, smá glaðning frá leikhúsinu, en Freyja er 25.000 gesturinn sem kemur á Dýrin í Hálsaskógi í vetur. Um helgina voru tíu Egnersýningar í Þjóðleikhúsinu og 2.600 áhorfendur sáu þær. 2.000 manns komu á Dýrin í Hálsaskógi og 600 sáu Karíus og Baktus.