Jólin koma með guðspjalla trúðanna. Jesús litli hefur slegið rækilega í gegn síðustu tvö ár og fer nú aftur á svið fyrir jólin þriðja leikárið í röð, nk. laugardag 26.11.11. Jesús litli hlaut Menningarverðlaun DV 2009 og var valin besta leiksýning ársins á Grímunni vorið 2010. Jesús litli er nýsnúinn aftur úr leikferð til Spánar en sýnt var í Principal leikhúsinu í Vitoria á Spáni síðustu helgi sem hluti af hinni árlegu Alþjóðlegu Vitoria-leiklistarhátíð.

Leikhúsið tekur 1000 manns í sæti og var uppselt á sýninguna. Sýningin tókst einstaklega vel og leikhópnum fagnað ákaft í sýningarlok og klappaður margsinnis upp.  Margir stjórnendur leikhúsa og leiklistarhátíða voru á sýningunni og lýstu nokkrir áhuga á að fá sýninguna til sýninga og eru þegar hafnar viðræður um sýningar í Madrid og í Bilbaou.

Trúðarnir í Jesú litla segja söguna á bak við Jólaguðspjallið með augum nútímans og með tilliti til tvöþúsund ára sögutúlkunar. Verkið er fyndið en um leið mikil harmsaga móður sem  er þvinguð til að ala barn í stríðshrjáðu landi. Benedikt Erlingsson leikstýrir Halldóru Geirharðsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur og Bergi Ingólfssyni í verkinu og Kristjána Stefánsdóttir semur tónlist.

Við erum stödd í Palestínu á því herrans ári núll. Rómverjar hafa sölsað undir sig Palestínu og Heródes er settur landstjóri. Þegar spyrst út að frelsari muni fæðast í landinu gefur hann út tilskipun um að myrða skuli öll sveinbörn, tveggja ára og yngri. Ljótt er það. Og trúðarnir dásamlegu spyrja. Hver fæðir eiginlega barn inn í slíkt ástan? Öll vitum við að Jólaguðspjallið er einstaklega fallegt og hátíðlegt, en það er ekki síður átakanlegt. Trúðarnir láta allt flakka, umbúðalaust. Þeim er ekkert óviðkomandi, þeir velta við öllum steinum, snúa öllu á hvolf og segja allan sannleikann – og ekkert nema sannleikann. Jafnvel þótt hann sé grimmur. Eða fyndinn.

Jesús litli kemur með jólin. Sýningin var ótvíræður sigurvegari Grímunnar 2010, hlaut alls sjö tilnefningar, var valin sýning ársins og leikverk ársins. Gagnrýnendur hafa hlaðið sýninguna lofi og áhorfendur verið hrærðir og heillaðir. Mannbætandi upplifun.

{mos_fb_discuss:2}