Íslenski/breski listhópurinn Huldufugl hefur nýlokið mánaðar ferðalagi um Bretland og Bandaríkin með leiksýninguna Kassann. Sýningin fer fram í sýndarveruleika, og er aðeins fyrir einn áhorfanda í einu.

Sýningin var frumsýnd á Reykjavík Fringe Festival fyrir ári síðan, en hefur tekið þó nokkrum breytingum á undanförnu ári og mætti segja að hún verði frumsýnd að nýju á Íslandi í þarnæstu viku. Á síðastliðnu ári hefur sýningin farið til Stokkhólms, Berlínar, Brighton, London, Los Angeles og San Diego og hefur hvarvetna selst upp á örskotsstundu og sýningin hlotið lof gagnrýnenda.
Einnig hefur sýningin unnið til verðlauna á þeim hátíðum sem hún hefur komið fram á, þriggja verðlauna alls.

Í Stokkhólmi, á Stockholm Fringe Festival, vann hún nýsköpunarverðlaun hátíðarinnar (Innovation in Performance), og var tilnefnd til aðalverðlauna (Grand Prix) í síðastliðnum september.
Í Berlín, á A Maze Festival, vann hún aðalverðlaun hátíðarinnar, besti leikur hátíðarinnar (Most Amazing Game Award) í mars.
Og nú um helgina vann hún til verðlauna á San Diego Fringe Festival, sem besta frumsýningin í Bandaríkjunum (Best USA Premiere).

Ferðalagið um Bretland og Kaliforníu var styrkt af FÍL, The Nordics, Finnish Institute, íslenska sendiráðinu í London og Nordic Fringe Network.

Sýningunni hefur verið boðið að koma aftur til Bretlands til að sýna í lengri tíma, og hefur fengið boð um að koma á þónokkrar spennandi hátíðir erlendis á næstu mánuðum.

Íslenskir gestir geta notið sýningarinnar í IÐNÓ og Gallerí Fold á Reykjavík Fringe Festival nú í ár, en hátíðin hefst með pompi og prakt þann 29. júní með opnunarhófi á Hlemmi Square.
Miðasalan fyrir Kassann er hafin á tix.is og verða gestir að hafa hraðann á, þar sem aðeins eru 36 miðar í boði.