Starfstími skólans á þessu ári er frá 8. til 16. júní að Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu. Skráning í skólann hefst 15. mars og stendur til til 15. apríl.
Fjögur námskeið verða í boði að þessu sinni. Í takt við traustar hefðir leggjum við áherslu á að byggja ofan á góðan grunn sem þegar hefur verið lagður auk þess að bjóða upp á ný og spennandi tækifæri. Í fyrra kynnti Árni Pétur Guðjónsson töfraheim leiklistarinnar fyrir nýliðum og hann kemur aftur í sumar með framhald, Leiklist II. Reyndari leikurum bjóðum við að kynnast spennandi aðferðum Þóreyjar Sigþórsdóttur sem hefur umtalsverða menntun og reynslu sem leikari og leiklistarkennari. Þá fáum við Rúnar Guðbrandsson til liðs við okkur og bjóðum upp á sérstaklega áhugavert og krefjandi framhaldsnámskeið fyrir þann vaxandi hóp sem hefur lokið grunnnámskeiðum í leikstjórn. Síðast en ekki síst mun Karl Ágúst Úlfsson leiðbeina upprennandi stórskáldum um leyndardóma leikritunar.
Bæklingur skólans starfsárið 2013 er hér á PDF formi.
Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga 2013
Kveðja frá skólanefnd:
Kæru leiklistarunnendur
Það er okkur mikil ánægja að bjóða ykkur velkomin að Húnavöllum í sumar þar sem Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga verður settur í sautjánda sinn laugardaginn 8. júní 2013.
Að þessu sinni munu ólíkir þættir leikhússins aldeilis blómstra í öllum hornum að Húnavöllum því nú verða fjögur námskeið í boði. Í takt við traustar hefðir leggjum við áherslu á að byggja ofan á góðan grunn sem þegar hefur verið lagður auk þess að bjóða upp á ný og spennandi tækifæri. Í fyrra kynnti Árni Pétur Guðjónsson töfraheim leiklistarinnar fyrir nýliðum og hann kemur aftur í sumar með framhald, Leiklist II. Reyndari leikurum bjóðum við að kynnast spennandi aðferðum Þóreyjar Sigþórsdóttur sem hefur umtalsverða menntun og reynslu sem leikari og leiklistarkennari. Þá fáum við Rúnar Guðbrandsson til liðs við okkur og bjóðum upp á sérstaklega áhugavert og krefjandi framhaldsnámskeið fyrir þann vaxandi hóp sem hefur lokið grunnnámskeiðum í leikstjórn. Síðast en ekki síst mun Karl Ágúst Úlfsson leiðbeina upprennandi stórskáldum um leyndardóma leikritunar.
Við vonum að þið látið ekki það happ úr hendi sleppa að kynnast þessum úrvalskennurum og njóta þess sem þeir hafa upp á að bjóða.
Hlökkum mikið til að sjá ykkur – með bestu kveðju
Hrefna, Dýrleif, Gunnhildur, Herdís og Hrund.
Starfstími skólans á þessu ári er frá 8. til 16. júní að Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu
Skráning í skólann stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl. Reglan „fyrstur kemur – fyrstur fær“ gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 35.000 ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.
Umsókn ásamt ferilskrá þar sem það á við skal senda á netfangið info@leiklist.is og leggja staðfestingargjaldið inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239
Bæklingur skólans starfsárið 2013 er hér á PDF formi.
Skólasetning er laugardaginn 8. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Húnavöllum kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 16. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.
Aðstaða að Húnavöllum: Svefnherbergin eru búin 2 rúmum án rúmfata, skáp, litlu borði og tveim stólum. Góðum dýnum verður bætt inn á stærstu herbergin og þau þannig gerð þriggja manna. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.
Þátttökugjald á öll námskeiðin er kr. 73.500.-. Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.
Staðfestingargjald allra er kr. 35.000 kr. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða með greiðslukorti.
Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.
Námskeið 1
Leiklist II – Grunnnámskeið
Kennari Árni Pétur Guðjónsson
Þátttökugjald: kr. 73.500
Tími: 8. til 16. júní 2013
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl
Árni Pétur Guðjónsson stundaði nám við Ríkisleiklistarskólann í Kaupmannahöfn, við Leiklistarskóla Íslands og er með leiklistarkennaragráðu frá Danmörku. Hann hefur starfað sem leikari og leiklistarkennari um víða veröld, m.a. í Leiklistarskóla íslands og Listdansskólanum. Starfaði sem leikari við Borgarleikhúsið 1989-2002. Er oft nefndur „Guðfaðir tilraunaleikhússins” enda verið með í eða staðið fyrir því markverðasta sem komið hefur fram þar td. Vesturport, Lab Loki, Herbergi408.is og í Áhugaleikhúsi atvinnumanna. Sumarið 2011 var Árni Pétur tilnefndur til Grímunar fyrir einleikinn „Svikarinn” í uppsetningu Rúnars Guðbrandssonar.
Þetta er í þriðja sinn sem Árni Pétur kennir við skólann.
Leiklist II er grunnnámskeið fyrir leikara ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I. Þegar nemendur hafa sótt bæði grunnnámskeiðin geta þeir sótt ýmis sérnámskeið sem skólinn heldur reglulega.
Á námskeiðinu verður aðaláherslan á að kynna sjálfstæð vinnubrögð leikarans við að nálgast hlutverk og flytja það fyrir framan áhorfendur. Nýta sköpunargáfu hvers og eins og finna styrk og veikleika. Svo að vinna með það þar til allir verða sáttir. Nemendur fá meiri leikstjórn og gagnrýni á það sem þeir sýna en á Leiklist I. Markmiðið er að gera þá að betri leikurum. Mikið verður unnið með spuna og myndrænar sviðsetningar. Hér er ekki verið að vinna með útvarpsleik. Það er staðreynd að æ fleiri leikstjórar sem vinna t.d. með áhugaleikfélögum eru spenntir fyrir hreyfingum, sterkum leik og dansleikhústilbrigðum. Við erum sem sagt að tala um: Blóð, svita og tár.
Eftir skráningu fá nemendur senda leiktexta sem unnið verður með. Kennarinn verður síðan í sambandi við nemendur til að koma þeim af stað með undirbúningsvinnu áður en námskeiðið hefst svo það nýtist sem allra best.
Námskeið 2
Leikstjórn – Sérnámskeið, Master Class
Kennari Rúnar Guðbrandsson
Þátttökugjald: kr. 73.500
Tími: 8. til 16. júní 2013
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl
Rúnar Guðbrandsson nam upphaflega leiklist í Danmörku og starfaði þar sem leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro, hjá leikhópi Jerzy Grotowskis í Wroclaw í Póllandi, Dario Fo á Ítalíu, Jury Alschitz í Kaupmannahöfn og víðar, og Anatoly Vasiliev í Moskvu. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester á Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Rúnar var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla Íslands. Hann hefur rekið leiksmiðjuna Lab Loka síðan 1992, stjórnað þjálfun hópsins og stýrt flestum verkefnum hans hérlendis og erlendis. Hann hefur auk þess fengist við ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar.
Þetta er í fimmta sinn sem Rúnar kennir við skólann.
Sérnámskeið í leikstjórn, ætlað þeim sem sótt hafa Leikstjórn I og II og sérnámskeið fyrir leikstjóra eða sótt sambærileg námskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leikstjórn.
Námskeið þetta verður jöfnum höndum fræðilegt og verklegt. Útgangspunkturinn er aðferð sem kennarinn hefur þróað með sér gegnum tíðina og sækir fyrst og fremst innblástur í ævistarf Konstantins Stanislavskys, bæði hina „vitsmunalegu greiningu“ sem Stanislavsky þróaði framan af ferli sínum og „aðferð líkamlegra gjörða“ sem hann vann að er hann féll frá.
Fleiri áhrifavaldar svífa þó yfir vötnunum og í fyrirlestrum verður fjallað um ýmsa strauma og stefnur í leikstjórn síðustu aldar. Þríeykið Stanislavsky, Brecht og Grotowski verða þar í brennidepli og meðul þeirra skoðuð í sambandi við tilganginn. Aðferðafræði, hugmyndafræði og fagurfræði ólíkra leikstjóra verða vegnar og metnar og bornar saman við „aðferð“ námskeiðsins.
Eftir að skráningu lýkur verða öllum þátttakendum send tvö verk til skoðunar. Annað verkið fá allir og verður það lagt til grundvallar í sameiginlegri vinnu og hópkennslu.
Að auki fær hver þátttakandi „sitt“ verk sem hann vinnur að sjálfstætt samhliða hinu. Kennari mun einnig senda þátttakendum verkefni til að íhuga og leysa áður en námskeiðið hefst, þannig að ákveðins undirbúnings verður krafist.
Kennsla fer fram með ýmsum hætti; fyrirlestrar, umræður, verklegar æfingar, einstaklingsverkefni, hópverkefni, o.s.frv. Brettið upp ermar og spýtið í lófa.
Námskeið 3
Leikritun I – Grunnnámskeið
Kennari Karl Ágúst Úlfsson
Þátttökugjald: kr. 73.500
Tími: 8. til 16. júní 2013
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl
Karl Ágúst Úlfsson lauk námi við Leiklistarskóla Íslands 1981 og meistaragráðu í leikritun og handritagerð frá Ohio University 1994. Hann hefur starfað sem leikari, leikstjóri, þýðandi og höfundur við íslensk og erlend leikhús, útvarp, sjónvarp og kvikmyndir í yfir 30 ár. Karl stofnaði Spaugstofuna ásamt félögum sínum árið 1985 og hefur síðan skrifað hátt á fimmta hundrað handrit að sjónvarps- og útvarpsþáttum. Leikrit og söngleikir eftir hann hafa verið sett á svið bæði austan hafs og vestan. Hann hefur einnig kennt skapandi skrif og leikritun við Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Leiklistarskóla Færeyja og Mesa State College í Colorado. Þetta er í þriðja sinn sem Karl Ágúst kennir við skólann.
Námskeiðið er ætlað öllum sem áhuga hafa á að spreyta sig við leiktextasmíð, jafnt algerum byrjendum og þeim sem einhverja reynslu hafa.
Kynntir verða helstu þættir klassískrar leikbyggingar og dæmi skoðuð. Sköpunarferlið verður í brennidepli og hugað að því hvað hvetur sköpunina og hvað letur hana.
Í gegnum nokkrar æfingar skoðum við grunneiningar leikritsins – upphaf, miðju og endi, kynnum okkur persónusköpun, söguþráð og samtöl.
Unnið verður með stutt verk, sem þó uppfylla öll skilyrði leiksögunnar, og stefnt er að því að lokaverkefni hvers nemanda verði tilbúið til meðhöndlunar leikara og leikstjóra.
Námskeið 4 – Féll niður
Leiklist – Sérnámskeið
Kennari Þórey Sigþórsdóttir
Þátttökugjald: kr. 73.500
Tími: 8. til 16. júní 2013
Staður: Húnavallaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl
Þórey Sigþórsdóttir útskrifaðist sem leikkona frá Leiklistarskóla Íslands 1991 og lauk MA gráðu í Advanced Theatre Practice frá The Royal Central School of Speech and Drama í London 2012. Árið 2004 útskrifaðist Þórey með kennsluréttindi í leiklist frá Listaháskóla Íslands. Þórey hefur starfað sem leikkona og leikstjóri víða. Þ.á.m. í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu, sjálfstæðum leikhópum, í kvikmyndum og hjá áhugaleikfélögum. Síðast lék Þórey einleikinn Ódó á gjaldbuxum sem Gjóla setti upp í leikstjórn Ásdísar Thoroddsen og í sýningunni mammamamma sem leikhópurinn Opið út setti upp í leikstjórn Charlotte Böving, báðar sýningar í samvinnu við Hafnarfjarðarleikhúsið. Þórey kenndi raddbeitingu við Listaháskóla Íslands (leiklistardeild 2002-2004, listnámskennsludeild 2002-2012), og hefur haldið námskeið við Leiðsöguskóla Íslands, Endurmenntun Háskóla Íslands, og fyrir ýmsa skóla og fyrirtæki. 2005-2011 starfaði hún sem leiklistarkennari við Austurbæjarskóla. Þórey er listrænn stjórnandi leikfélagsins Fljúgandi Fiskar og hluti af leikhópnum Head of a Woman http://headofawoman.com. Nánari upplýsingar um störf Þóreyjar má finna á www.thoreysigthors.com. Þetta er í fyrsta sinn sem Þórey kennir við skólann.
Námskeiðið er framhaldsnámskeið fyrir leikara sem sótt hafa Leiklist I og II eða sambærileg námskeið eða hafa talsverða reynslu af sviðsleik.
Á námskeiðinu verður lagður grunnur að skapandi raddþjálfun og það skoðað hvernig við getum nýtt okkur það í textavinnu og persónusköpun. Unnið verður með öndun, líkamstengingu, karl- og kvenorku raddarinnar í æfingum við píanó, bæði í einstaklingsvinnu og í hóp. Loks er sú vinna tekin áfram og tengd inn í textavinnuna.
Fyrri hluti dags fer í raddþjálfun og seinni hluti í texta/senu vinnu.
Unnið verður með valdar senur úr verkum Shakespeare.
Þórey byggir raddþjálfunina á kerfi Nadine George, sjá www.voicestudiointernational.com en hún hefur unnið með það frá 1996 og sótt mörg námskeið hjá henni bæði hér á Íslandi og í London.
Umsóknum skal skila á netfangið info@leiklist.is
Þá skal leggja staðfestingargjaldið, kr. 35.000.- inn á 334-26-5463, kt. 440169-0239 og senda eftirtaldar upplýsingar í tölvupósti:
Hvaða námskeið er verið að sækja um, nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, póstnúmer, bæjarfélag, netfang og símanúmer. Þar sem krafist er undirbúningsnámskeiða eða reynslu skal láta ferilskrá fylgja umsókn.
Húnavallaskóli, eða Hótel Húnavellir eins og hann heitir á sumrin, er staðsettur í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þangað eru 239 km. frá Reykjavík, 118 eða 156 km. frá Akureyri (eftir því hvaða leið er farin) og fjarlægðin frá Blönduósi er um 15 km.