Leikfélag Bolungarvíkur frumsýnir farsann Félegt fés eftir Dario Fo, laugardaginn 9. mars í Félagsheimili Bolungaríkur. Þýðinguna gerði Þórarinn Eldjárn en Magnús Guðmundsson leikstýrir. Þetta er önnur sýning Leikfélags Bolungarvíkur eftir að það var endurreist en sl. vetur en þá sýndi það Að eilífu eftir Árna Ibsen. Auk frumsýningar verður Félegt fés sýnt dagana 15., 16., 29, og 30. mars og hefst sýningin kl. 20 nema þann 29., þá hefst hún kl. 15.

Félegt fés er dæmigerður farsi úr smiðju Dario Fo. Hann fjallar um Agnelli sem er forstjóri Fiat verksmiðjunnar. Hann lendir í slysi með þeim afleiðingum að andlit hans skaddast og hann verður óþekkjanlegur og honum er ruglað saman við þann sem að bjargaði honum. Þá hefst bráðfyndinn, kunnuglegur misskilningur og flækja sem Dario Fo er þekktur fyrir.

Dario Fo er ítalskur leikstjóri og leikritaskáld. Hann fékk bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1997 og hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir háðsdeilur sínar af pólitískum öflum á hægri vængnum á Ítalíu sem og kaþólsku kirkjunni enda eru þessar stofnanir gjarnan skotspónn hárbeittrar ádeilu hans. Þetta er fyrsta stóra sýningin hjá áhugamannaleikfélagi sem Magnús Guðmundsson leikstýrir en hann útskrifaðist úr leikaranámi við Listaháskóla Íslands árið 2007 og hefur leikið í fjölmörgum sýningum.

Miðapantanir í síma: 8698284 (Kristín) og 8666612 (Anna) eða í tölvupósti: kristingudny@gmail.com. Vakin er athygli á sérstöku tilboði í Einarshúsi, þau kvöld sem leiksýningar eru: Tveggja rétta máltíð á 2.900,-. Borðapantanir í síma 456-7901 eða 864-7901. Steinunn Diljá Högnadóttir kokkanemi mun koma vestur og hafa yfirumsjón með eldamennskunni þann 15. og 16.