Þrátt fyrir veirufár og allt sem því hefur fylgt, er stefnt að því að halda elleftu NEATA leiklistarhátíðina í Eistlandi í ár. Hátíðin verður haldin á eyjunni Saaremaa undan ströndum Eistlands 10. – 13. september í haust. Eistar bjóða íslenskum leikhóp á hátíðina og verður gisting, fæði og ferðir innanlands fyrir allt að 10 manns, greiddar af gestgjöfum.

Félög sem hafa áhuga á að sækja um með sýningu sendi umsókn á info@leiklist.is.  Fram þarf að koma nafn félags, leiksýning og tengiliður félags.

NEATA, Norður-Evrópsku áhugaleikhússamtökin, eru samtök áhugaleiksambanda á Norðurlöndunum og í Baltnesku ríkjunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Samtökin hafa haldið NEATA leiklistarhátíðina á tveggja ára fresti síðan árið 2000.