Æfingar eru hafnar hjá Leikfélagi Rangæinga á gamanleiknum Góðverkin kalla! Leikstjóri er Ármann Guðmundsson en hann er jafnframt einn höfunda verksins ásamt Sævari Sigurgeirssyni og Þorgeiri Tryggvasyni. Frumsýnt verður í Hellubíói á Hellu í byrjun nóvember og verður leikfélagið í samstarfi við veitingahúsið sem rekið er í húsinu.

Verkið fjallar um baráttu þriggja góðgerðarfélaga í litlu þorpi úti á landi, um það hvert þeirra er best í að vera gott. Í því stríði er einskis svifist en málin flækjast þegar öll félögin fá sömu hugmynd að afmælisgjöf handa sjúkrahúsi bæjarins í tilefni að 100 ára afmæli þess. Þá er úr vöndu að ráða, ekki síst fyrir lækni bæjarins sem fyrir löngu er búinn að fá nóg af öllum þeim vítisvélum sem félögin hafa í gegnum tíðina fært sjúkrahúsinu að gjöf.