Jólaleikrit Þjóðleikhússins árið 2006 er Bakkynjur eftir Evrípídes. Frumsýning verður 26. desember og þetta er í fyrsta sinn sem verkið er sýnt á Íslandi. Bakkynjur er eitt frægasta leikrit grísku gullaldarinnar í leikritun og talið til harmleikja þótt það lúti ekki allskostar lögmálum hefðbundinna harmleikja. Hér birtist það í glænýrri þýðingu Kristjáns Árnasonar.

Í verkinu segir frá því er guðinn Díónýsos, öðru nafni Bakkos,  kemur til Þebuborgar til að minna borgarbúa á guðlegan uppruna sinn og  staðfesta nýjan helgisið sér til dýrðar. Af hans völdum hafa allar konur borgarinnar lagst út til að blóta Bakkos og æða trylltar um hlíðar fjallsins Kíþeron í einhvers konar algleymi vímunnar. Þegar Penþeifur konungur borgarinnar, sonur Kaðmosar neitar að taka Díónýsos og nýja siðinn í sátt, lætur Díónýsos reiði sína bitna á konungsfjölskyldunni og öðrum borgarbúum með hörmulegum afleiðingum.


Verkið fjallar um baráttu milli manna, aðkomumanninn sem veldur uppnámi í samfélaginu og síðast en ekki síst vímuna og það stjórnleysi, æði og upplausn sem hún getur valdið. Það fjallar um sálarlíf valdhafa, bældar hvatir og ófullnægju, mismunandi hlutverk karla og kvenna og upplausn samfélagsins.

Listrænir aðstandendur sýningarinnar eru m.a. frá Grikklandi, annars vegar leikstjórinn Giorgos  Zamboulakis og hins vegar Thanos Vovolis, sem er höfundur leikmyndar, búninga, gerva og gríma. Giorgos og Thanos hafa unnið áður við Þjóðleikhúsið sem höfundar sviðshreyfinga, búninga og gríma í Mýrarljósi 2005. Fyrir vinnu sína fengu þeir tilnefningu til Menningarverðlauna DV.
Aðstoðarleikstjóri þeirra er Þórunn Sigþórsdóttir en Hlín Agnarsdóttir er dramatúrg.
Til liðs við sig hafa þeir fengið tónskáldið Atla Ingólfsson og danshöfundinn Ernu Ómarsdóttur sem þykir ein af athyglisverðustu dönsurum í Evrópu í dag.  Lýsingu hannar Lárus Björnsson. Björk Viggósdóttir sá um myndvinnslu.
Með hlutverk Díonýsosar eða Bakkosar fer Stefán Hallur Stefánsson, Arnar Jónsson leikur Kaðmos konung og Ólafur Darri Ólafsson leikur Penþeif konung í Þebu en Guðrún Snæfríður Gísladóttir er Agava móðir Penþeifs. Hinn blindi spámaður Tíresías er leikinn af Þresti Leó Gunnarssyni en Valur Freyr Einarsson leikur þjón og Friðrik Friðriksson og Jóhannes Haukur Jóhannesson eru sendiboðar sem leika stór hlutverk í leikritinu.
Með hlutverk Bakkynja fara þær Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Jóhanna Jónas, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Sigríður Soffía Níelsdóttir og Valgerður Rúnarsdóttir og Birna Hafstein.
Guðni Franzson og Kjartan Guðnason leika á hljóðfæri í sýningunni en fara jafnframt með hlutverk satýra.