Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt leikrit, Sigvaldi Kaldalóns, í Hömrum á Ísafirði á föstudag. Hér er á ferðinni leikverk sem fjallar um ár Sigvalda í Djúpinu fyrir vestan. Þar dvaldi hann í ein ellefu ár sem læknir. Þrátt fyrir mikið annríki í hinu afskekkta en víðferma læknishéraði gaf hann sér tíma til að semja lög. Á þeim ellefu árum sem hann dvaldi í Djúpinu samdi hann um 100 lög og eru mörg þeirra meðal hans kunnustu verka. Höfundur og leikari er Elfar Logi Hannesson. Með honum á sviðinu er Dagný Arnalds sem sér um allt í senn hljóðfæraleik, söng og leik.

Sigvaldi Kaldalóns er með dáðustu listamönnum þjóðarinnar. Lög hans eru sungin mun oftar en fólk líklega áttar sig á enda var hann mjög ötull og hittinn á réttu tónana í verkum sínum. Í þessu leikverki um ár Sigvalda í Kaldalóni verða flutt mörg þeirra laga sem hann samdi á sínum Kaldalónsárum. Alltof langt mál væri að telja þau öll upp hér en meðal laga í sýningunni má nefna Við Kaldalón, Þú eina hjartans yndið mitt, Sofðu góði sofðu og Svanurinn minn syngur. Í sýningunni verður brugðið upp atvikum frá þessum skapandi tíma í ævi Sigvalda. Samstarfi hans við Höllu skáldkonu, tónleikahaldi hans og Eggerts stórsöngvara bróður hans fyrir vestan, læknaferðum um Djúpið sem voru nú ekki alltaf hættulausar og síðast en ekki síst samskiptum hans við Djúpmenn. Víst fílaði Sigvaldi sig vel í Djúpinu meira að segja svo vel að hann kenndi sig við næsta nágrenni Ármúla. Við hið stórbrotna Kaldalón.

Kómedíuleikhúsið er fyrsta atvinnuleikhús Vestfjarða og hefur sérhæft sig í að vinna úr sínum eigin sagnaarfi. Allar sýningar leikhússins tengjast sögu Vestfjarða á einn eða annan hátt. Meðal sýninga sem Kómedíuleikhúsið hefur sett á svið má nefna Muggur, Steinn Steinarr, Gísli Súrsson, Jón Sigurðsson – Strákur að vestan, Náströnd – Skáldið á Þröm og Listamaðurinn með barnshjartað. Sigvaldi Kaldalóns er 33. uppfærsla leikhússins. En gaman er að geta þess að öll verkin utan eitt koma úr smiðju Kómedíuleikhússins.

Önnur sýning á leikverkinu Sigvaldi Kaldalóns verður í Hömrum á sunnudag, Konudag, og hefst kl.20. Aðeins verður um þessar tvær sýningar að ræða.