Nýtt íslenskt leikverk, Ráðabruggið og bland í poka eftir Sellu Páls, Bjarna Ingvarsson og leikhóp Snúð og Snældu, verður frumsýnt í Iðnó laugardaginn 16. febrúar kl. 14. Verkið gerist á vistheimili þar sem aldraðir búa. Vistheimilið er 50 ára og í tilefni þess hefur hópur vistmanna tekið að sér að æfa upp skemmtidagskrá. Dagskráin inniheldur leikritið Ráðabruggið og nokkra gaman þætti þar sem stikklað er á milli söng atriða. Bjarni Ingvarsson leikstýrir, en hann hefur leikstýrt og leikið í fjölda leiksýninga og leikið í nokkrum kvikmyndum. Bjarni var einn af stofnendum og stjórnendum Möguleikhússins.

Ráðabruggið er eftir Sellu Páls og fjallar um Geirþrúði, aldraða konu, sem gabbar son sinn til sín, en tilgangurinn er annar en sá sem sýnist. Bland í poka er með texta eftir Bjarna Ingvarsson og leikhópinn. Sjö til átta lög eru í sýningunni. Lög og söngtextar eru gamlar perlur frá fyrri tíð eftir ýmsa höfunda. Leikið er undir á harmonikku og gítar og er lögð áhersla á að áhorfendur taki undir.

Verkið er um það bil 80 mínútur í flutningi og taka 11 manns þátt í uppfærslunni. Nokkrir nýjir leikarar stíga sín fyrstu spor á leiksviðinu í þessari uppfærslu, en auk þeirra eru þaulreyndir leikarar sem tekið hafa þátt í fjölda leiksýninga hjá leikhópnum Snúði og Snældu.

Sýnt í Iðnó fimmtudag 21. febrúar og laugardag 23. febrúar kl. 14
Miða má kaupa í Iðnó, sími 562 9700