Fáar leiksýningar hafa vakið meiri lukku á árinu og komið meira á óvart en sýning leikfélagsins Munaðarleysingjar á leikritinu Munaðarlaus e. Dennis Kelly í leikstjórn  Vignis Rafns Valþórssonar. Sýningin var sýnd í janúar og febrúar fyrir fullu húsi í Norræna húsinu og í kjölfar þess var henni boðið að vera óvissusýning ársins hjá Leikfélagi Akureyrar. Hópurinn lét sér þó ekki nægja að sýna bara á Akureyri heldur fór einnig á Vopnafjörð og Egilsstaði en á öllum þessum stöðum var sýnt fyrir fullu húsi við mjög góðar undirtektir.

Hópurinn varð síðan að hætta sýningum vegna annarra verkefna en hefur nú ákveðið að blása til tveggja aukasýninga á verkinu á næstkomandi föstudag, 14 maí. Sýndar verða 2 sýningar, kl. 19 og kl. 22 og verður verkið sýnt á Norðurpólnum, hina nýja leikhúsi sem risið hefur út á Gróttu.

Bryddað var upp á þeirri nýbreytni við sýningar á Munaðarlaus að hafa tekjutengda verðskrá og verður engin breyting þar á í þetta sinn. Lágtekjufólk greiðir 2000 kr., miðtekjufólk greiðir 3000 kr. og hátekjufólk greiðir 5000 kr. Það er þó á ábyrgð hvers og eins að gefa upp rétta fjárhagsstöðu sína.

Munaðarlaus er verk sem rannsakar heim sem fæst okkar þekkja og viljum ekki vita af en er beint fyrir utan dyrnar okkar. Hversu langt erum við tilbúin að ganga til að vernda okkar nánustu? Hvernig getur samviskan haldist hrein þegar allir sveigja réttlætið að eigin þörfum? Danni og Helena eru búin að redda pössun, kæla vínið, kveikja á kertum og eru sest við kvöldverðarborðið. Allt stefnir í fullkomna kvöldstund þegar Ívar, bróðir Helenu, mætir á svæðið. Útataður í blóði.

Þetta er í fyrsta sinn sem verk eftir Dennis Kelly er frumsýnt á Íslandi en verk hans hafa vakið mikla athygli. Verk hans hafa verið sýnd um gervalla Evrópu og Norður Ameríku og var nýlega valinn Besta Erlenda Leikskáldið af þýska leiklistartímaritinu Theatre Heute fyrir verk sitt Taking Care of Baby. Munaðarlaus, eða Orphans, var frumsýnt á Edinborgar-hátíðinni nú í sumar við frábærar undirtektir. Þar hlaut verkið Fringe First verðlaunin og Herald Angel verðlaun hátiðarinnar. Það var síðan frumsýnt í Birmingham Repertory Theatre nú í september og í Soho Theatre í London þann 8. október. Verkið fékk m.a. 5 stjörnur hjá Time Out og mjög góða dóma í öllum helstu fjölmiðlum Bretlands.

Leikarar: Hannes Óli Ágústsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Tinna Lind Gunnarsdóttir.

Gunnar Karel Másson semur tónlist og hljóðmynd, Anna María Tómasdóttir sér um búninga og ljósahönnun er í höndum Karls Sigurðssonar.

Tölvupóstur miðasölu: munadarlaus@gmail.com
Pöntunarsími: 895 9919
Erum einnig á Facebook: Munaðarlaus Leiksýning.

{mos_fb_discuss:2}