Þjóðleikhúsið og Listahátíð í Reykjavík standa fyrir málþingi um Harold Pinter sunnudaginn 14. maí kl. 14 á Stóra sviði Þjóðleikhússins í tengslum við frumsýningu Þjóðleikhússins á leikriti Pinters, Fagnaði. Michael Billington, sem er einn þekktasti leiklistargagnrýnandi Breta og höfundur ævisögu Pinters, flytur framsöguerindi. haroldpinter.jpgÞjóðleikhúsið og Listahátíð í Reykjavík standa fyrir málþingi um Harold Pinter sunnudaginn 14. maí kl. 14 á Stóra sviði Þjóðleikhússins í tengslum við frumsýningu Þjóðleikhússins á leikriti Pinters, Fagnaði. Michael Billington, sem er einn þekktasti leiklistargagnrýnandi Breta og höfundur ævisögu Pinters, flytur framsöguerindi.

Billington nefnir erindi sitt: “Hvaðan fær Pinter innblástur? Úr hverju spretta leikrit hans?” Billington ræðir einnig við bresku leikkonuna Penelope Wilton sem verður sérstakur gestur þingsins. Hún hefur meðal annars leikið í Svikum, Einskonar Alaska og Fagnaði eftir Harold Pinter. Spjall þeirra ber yfirskriftina “Að leika Pinter”. Að því loknu verða pallborðsumræður undir stjórn Hávars Sigurjónssonar. Auk  Billington og Wilton taka þátt í umræðunum Martin Regal, dósent við Háskóla Íslands og Stefán Jónsson leikstjóri. Að þinginu loknu býður Breska sendiráðið upp á léttar veitingar á Kristalsal.

Harold Pinter er eitt frumlegasta og merkasta leikskáld Breta á síðari hluta tuttugustu aldar. Hann hefur skrifað um þrjá tugi leikrita, en hefur jafnframt haft mikil áhrif á leiklist í Bretlandi sem leikstjóri og höfundur fjölda útvarps- og sjónvarpsleikrita, sem og kvikmyndahandrita. Á síðari árum hefur Pinter látið til sín taka á opinberum vettvangi í mannréttindabaráttu og hörð gagnrýni hans á ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna vegna stefnu þeirra í alþjóðastjórnmálum hefur vakið mikla athygli. Pinter hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2005.

Leikritið Fagnaður, sem var frumflutt í London árið 2000, er margslungið og meistaralega vel skrifað leikrit, þar sem einstakur stíll og óvæntur húmor Pinters njóta sín afar vel. Leikstjóri sýningarinnar er Stefán Jónsson.

Aðgangur að þinginu er ókeypis.