Námskeið á vegum Þjóðleikhússins um Bakkynjur eftir Evripídes í nýrri og glæsilegri þýðingu Kristjáns Árnasonar sem m.a. styðst við nýgríska útgáfu af leiknum eftir gríska heimspekinginn og ljóðskáldið Giorgos Chimonas.
Bakkynjur eru nú settar upp í fyrsta sinn á Íslandi og eru jafnframt jólasýning Þjóðleikhússins. Frumsýning er 26. desember n.k.

thjodleikhus_logo.gif

Efnisþráður Bakkynja:
Bakkynjur eftir Evripídes eru einn af frægustu harmleikjum grísku fornaldarinnar.
Þar segir frá því er guðinn Díónýsos, öðru nafni Bakkos, kemur til Þebuborgar til að minna borgarbúa á guðlegan uppruna sinn og staðfesta nýjan helgisið sér til dýrðar. Af hans völdum hafa allar konur borgarinnar lagst út til að blóta Bakkos og æða trylltar um hlíðar fjallsins Kíþeron í einhvers konar algleymi vímunnar. Þegar Penþeifur konungur borgarinnar neitar að taka Díónýsos og nýja siðinn í sátt, lætur Díónýsos reiði sína bitna á konungsfjölskyldunni og öðrum borgarbúum með hörmulegum afleiðingum.

Listrænir aðstandendur:
Listrænir aðstandendur sýningarinnar eru m.a. frá Grikklandi, annars vegar leikstjórinn Giorgos Zamboulakis og hins vegar Thanos Vovolis, sem er höfundur leikmyndar, búninga, gerva og gríma. Giorgos og Thanos hafa unnið áður við Þjóðleikhúsið sem höfundar sviðshreyfinga, búninga og gríma í Mýrarljósi 2005. Fyrir vinnu sína fengu þeir tilnefningu til Menningarverðlauna DV. Til liðs við sig hafa þeir fengið tónskáldið Atla Ingólfsson og danshöfundinn Ernu Ómarsdóttur sem þykir ein af athyglisverðustu dönsurum í Evrópu í dag. Lýsingu hannar Lárus Björnsson. Vídeolistamaður er Björk Viggósdóttir.

Með hlutverkin í leiknum fara eftirtaldir leikarar, dansarar og tónlistarmenn:
Arnar Jónsson, Guðrún Gísladóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Ólafur Darri Ólafsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Friðrik Friðriksson, Valur Freyr Einarsson, Ragnheiður Steindórsdóttir, Jóhanna Jónas, Álfrún Örnólfsdóttir, Birna Hafstein, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir, Sigríður Soffía Níelsdóttir, Kjartan Guðnason og Guðni Franzson.

Umsjón með námskeiðinu hefur Hlín Agnarsdóttir hlin@leikhusid.is sem einnig veitir nánari upplýsingar.
Skrásetning á námskeið er hjá miðasölu Þjóðleikhússins á midasala@leikhusid.is eða í síma 551 1200
Sjá nánar: www.leikhusid.is

Tímasetning námskeiðsins:


Þriðjudagur 21. nóvember kl. 20.00 – 22.00

Bakkynjur og baksvið þeirra, Evripídes og gríski harmleikurinn, gríska leikhúsið í fornöldinni, goðsagnheimur Grikkja, guðinn Díónýsos, uppruni, útbreiðsla og iðkun.
Fyrirlesarar: Hlín Agnarsdóttir og Kristján Árnason.
Staður: Kassinn, Lindargata 7

Þriðjudagur 28. nóvember kl. 20.00 – 22.00
Bakkynjur frá texta á leiksvið, greining og túlkun verksins, listræn útfærsla og áherslur, hugmyndir að baki leikmyndar og búninga, grímunotkun til forna og í nútímanum.
Fyrirlesarar: Giorgos Zamboulakis og Thanos Vovolis ásamt leikurum úr sýningunni.
Ath. Boðið verður upp á túlkun á íslensku úr ensku og grísku.
Staður: Kassinn, Lindargata 7

Þriðjudagur 12. desember kl. 20.00 – 22.00

Heimsókn á æfingu á Bakkynjum á Stóra sviðinu. Hvernig gengur að koma innihaldi verksins til skila á leiksviðinu? Innlit á æfingu tveimur vikum fyrir frumsýningu.
Umsjón: Hlín Agnarsdóttir og Atli Ingólfsson.
Staður: Þjóðleikhúsið aðalbygging, sviðsinngangur frá Lindargötu.

Fimmtudagur 28. desember kl. 20.00 – 22.30

Sýning á Bakkynjum.
Staður: Þjóðleikhúsið aðalbygging, gengið inn frá Hverfisgötu

Umræður

Staður og tími nánar auglýst síðar

Námskeiðsgjald: 12.500
Innifalið í námskeiðsgjaldi: Handrit að Bakkynjum, fyrirlestrar, innlit á æfingu, sýning á Bakkynjum, umræður með listrænum aðstandendum.