Sýna 37 leikrit á 97 mínútum.

Æfingar eru hafnar á gamanleiknum Sjeikspír eins og hann leggur sig hjá Leikfélagi Akureyrar. Að verkinu kemur bæði heimafólk og fólk sem hefur áður gert sig heimakomið á Akureyri. Vandræðaskáldin norðlensku Vilhjálmur Bergmann Bragason og Sesselía Ólafsdóttir setja sterkan svip á uppsetninguna, þar sem þau hafa samið nýja tónlist fyrir verkið. Auk þess þýddi Vilhjálmur verkið og aðlagaði en Sesselía fer með eitt þriggja hlutverka þess. Raunar er ef til vill réttara að segja að hún sé einn af leikurum þess, því hver leikari þarf auðvitað að bregða sér í fjölmörg hlutverk þegar gerð er tilraun til að flytja öll 37 verk William Shakespeare á aðeins 97 mínútum. Jóhann Axel Ingólfsson er nýsnúinn aftur heim til Akureyrar eftir að hafa lokið leiklistarnámi í New York og bregður sér m.a. í hlutverk sjálfrar Júlíu. Hann er einmitt ekki alls óvanur því að bregða sér í mörg hlutverk því þegar hann lék í verkinu Elska í Samkomuhúsinu síðasta vetur túlkaði hann fjölmarga ólíka karaktera. Benedikt Karl Gröndal snýr svo aftur til Akureyrar til að taka þátt í uppsetningunni en hann hefur heldur betur kitlað hláturtaugar Akureyringa áður, m.a. í gamanverkinu Þetta er grín, án djóks.

Það var líf og fjör á fyrsta samlestri og ljóst að gestir Samkomuhússins eiga von á góðri skemmtun. Nú þegar er orðið uppselt á frumsýninguna þann 2. mars, en miðar á aðrar sýningar í mars og apríl eru komnar í sölu.

Jóhannes Axel:
„Það er alveg frábært að vera kominn heim og að taka þátt í þeirri uppsveiflu sem er í gangi í menningarlífinu á Akureyri.“ 

Sesselía:
„Þetta er mjög í anda þess sem við Vandræðaskáldin höfum verið að gera; grín, gleði og almennur vitleysisgangur út í gegn.“

Meðfylgjandi er mynd sem var tekin við fyrsta samlestur af hluta hópsins sem stendur að sýningunni, en auk ofantalinna eru á myndinni Ólafur Ágúst Stefánsson sem sér um ljósahönnun, Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri og Brynja Björnsdóttir sem sér um leikmynd, búninga- og gervahönnun.