Dagana 5. og 6. júlí leggur Leikhópurinn Lotta land undir fót og heldur til Vestfjarða með útisýningu sína á Galdrakarlinum í Oz. Laugardaginn 5. júlí kl. 14:00 verður sýning á Bíldudal og sunnudaginn 6. júlí kl. 14:00 verður sýnt á túninu við Gamla sjúkrahúsið á Ísafirði en þar sýndi leikhópurinn einmitt Dýrin í Hálsaskógi í fyrra.

Þetta eru þó síður en svo einu sýningar Leikhópsins nú í vikunni því að í dag, miðvikudag (og reyndar vel flesta miðvikudaga sem eftir lifir sumars) er sýning í Elliðaárdal og á morgun, fimmtudaginn 3. júlí, er sýning á túninu við Vífilstaði í Garðabæ.

Í næstu viku mun Lotta verða á ferð um Suðurland og sýna á Kirkjubæjarklaustri kl. 12:00 og Vík í Mýrdal kl. 17:00 föstudaginn 12. júlí. Sunnudaginn 13. júlí eru svo sýningar á Hellu kl. 12:00 og Sólheimum í Grímsnesi kl. 17:00 . Í millitíðinni verða sýningar í Elliðaárdal 9. júlí og á Rútstúni í Kópavogi þann 10. júlí og hefjast þær sýningar kl. 18:00

Leikhópurinn Lotta sérhæfir sig í útisýningum fyrir börn og sýndi í fyrra Dýrin í Hálsaskógi við miklar vinsældir út um allt land. Sýningar á Galdrakarlinum í Oz standa út ágústmánuð og er hægt að panta sýningar í síma 770-0403.

{mos_fb_discuss:2}