Leikfélagið Hugleikur í Reykjavík hefur fest kaup á nýju húsnæði að Langholtsvegi 109 undir starfsemi sína. Ætlunin er að nýta nýja húsnæðið sem félags-, æfingar- og -geymsluaðstöðu en einnig er horft til þess að þar megi sýna minni sýningar.

Fyrsti opinberi viðburðurinn í nýja húsnæðinu er framhaldsaðalfundur sem haldinn verður fimmtudagskvöldið 28. september kl. 20 og eru allir áhugasamir velkomnir, hvort sem þeir hafa starfað með félaginu eða hafa hug á að gera það í framtíðinni. Á meðal þess sem gert verður á fundinum er að kynna starfsemi vetrarins en ætlunin er að halda uppi fjölbreyttri starfsemi í húsinu.