Leikritið Kommúnan, eftir Gísla Örn Garðarsson, byggt á kvikmynd Lukas Moodyssons, Tillsammans, verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu næstkomandi fimmtudag, þann 21. febrúar. Kommúnan er gamanleikur með dökkum undirtón, nostalgískt leikrit um vandamálin og hamingjuna sem felst í því að vera manneskja umkringdur öðrum manneskjum. Kommúnan er samstarfsverkefni Vesturports og Leikfélags Reykjavíkur.

Leikritið fjallar um hóp fólks sem hefur valið að búa saman í kommúnu með hugsjónir hippa um frið, sameign og frjálsar ástir að leiðarljósi, og andæfa um leið allri neysluhyggju og kapitalisma. Allir eru grænmetisætur og fyrirlíta sjónvarp. Lína Langsokkur er álitinn kapítalisti og enginn á sér leyndarmál í kommúnunni. Þannig eru allir frjálsir og frelsið er að sjálfsögðu yndislegt. Eða hvað?

Verkið verður einungis sýnt í takmarkaðan tíma og því er mikilvægt að áhugasamir sýni fyrirhyggju og tryggi sér miða í tíma. Að mati forsýningargesta hefur Gísla Erni Garðarssyni, listrænum stjórnendum öðrum og leikarahópnum, tekist að skapa heillandi heim og trúverðugan þar sem andi áttunda áratugarins á Íslandi svífur yfir vötnum. Gael Garcia og Elena Anaya sem nú leika á sviði hér á landi í fyrsta sinn hafa fundið sig vel í verkinu og sem hluti hópsins. En hópsins bíður langt og mikið ferðalag með sýninguna í apríl, en þá verður verkið tekið til sýninga í Mexíkó. Það er því skynsamlegt að stökkva strax á miða.

Leikendur eru Atli Rafn Sigurðsson, Árni Pétur Guðjónsson, Elena Anaya, Gael Garcia Bernal, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Rúnar Freyr Gíslason, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Urður Bergsdóttir/Ingibjörg Sóllilja Baltasarsdóttir, Rafn Kumar Bonifacius/Aron Brink.

Listrænir stjórnendur
Aðstoðaleikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson
Hljóð: Jakob Tryggvason
Ljós: Halldór Örn Óskarsson
Leikgervi: Sigriður Rósa Bjarnadóttir
Búningar: Ríkey Kristjánsdóttir
Tónlist: Karl Olgeirsson
Leikmynd: Börkur Jónsson
Leikstórn: Gísli Örn Garðarsson

{mos_fb_discuss:2}