Leikhópurinn Lotta verður á ferð og flugi um Verslunarmannahelgina með leiksýninguna sína Hans klaufa. Laugardaginn 31. júlí verður Hans klaufi sýndur á Flúðum klukkan 13 og á Laugarvatni klukkan 17 og á sunnudaginn 1. ágúst í Munaðarnesi klukkan 13 og í Húsafelli klukkan 17. Verkið skrifaði Ljóti hálfvitinn Snæbjörn Ragnarsson en auk Hans klaufa koma við sögu aðrar þekktar persónur úr ævintýraheiminum.

Þar má til dæmis nefna Öskubusku og froskaprinsinn. Verkið segir frá því þegar Aron prins og aðstoðarmaður hans, Hans klaufi, koma heim úr löngu ferðalagi. Þegar heim kemur komast þeir að því að ekki er allt með feldu. Norn hefur komið þangað í fjarveru þeirra, lagt álög á kóngsríkið og svæft alla þegna þess og til að bæta gráu ofan á svart breytir hún Aroni prins í frosk. Nú eru góð ráð dýr og er það undir Hans klaufa komið að aflétta álögunum og bjarga kóngsríkinu. Verst bara hvað hann er mikill klaufi.

Áhorfendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri, taka teppi til að sitja á og myndavél en börnin fá að hitta karakterana úr sýningunni og þá er gaman að festa það á filmu.

Miðaverð er krónur 1.500.

Frekari upplýsingar í síma 698-1293 Anna Begga.

{mos_fb_discuss:2}