Dagana 10.-15. ágúst heldur Bandalag íslenskra leikfélaga fjölþjóðlega leiklistarhátíð í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Hátíðin er á vegum NEATA, Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðsins og verða þar sýndar leiksýningar frá öllum Norðurlöndunum, Lettlandi, Litháen, Rúmeníu og Frakklandi. Hátíðin verður sett að kvöldi þriðjudagsins 10. ágúst og verða allar leiksýningar og aðrir viðburðir hátíðarinnar í Menningarhúsinu Hofi. Alls er reiknað með að um 250 manns taki beinan þátt í hátíðinni.

Þema hátíðarinnar er Maður – Náttúra og einkunnarorðin eru Af hjartans list
.

Hátíðin beinir sjónum að manneskjunni og samskiptum hennar við náttúruna, bæði hvað varðar óblíð náttúruöflin og mannlega náttúru; eilífa baráttu við hatur, ástríður, fordóma og svo mætti lengi telja. Alls verða sýndar 12 leiksýningar á hátíðinni, þar af þrjár íslenskar. Þær eru Umbúðalaust frá Leikfélagi Kópavogs í leikstjórn Vigdísar Jakobsdóttur, Birtingur frá Leikfélagi Selfoss og Vínland frá Freyvangsleikhúsinu, báðar í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar.

Auk leiksýninga verður boðið upp á þrjár leiksmiðjur á meðan á hátíðinni stendur, leiðbeinendur á þeim eru Ágústa Skúladóttir, Bernd Ogrodnik og Rúnar Guðbrandsson. Jafnframt mun hátíðarklúbbur verða starfræktur þar sem þátttakendur á hátíðinni munu skemmta sér og öðrum. Boðið verður uppá gagnrýni á sýningar hátíðarinnar og verða gagnrýnendur Dr. Danute Vaigauskaite frá Háskólanum í Klaipeda, Litháen og Þorgeir Tryggvason, leiklistargagnrýnandi og formaður Bandalags íslenskra leikfélaga.

Leiklistarhátíðin á Akureyri er 6. NEATA-hátíðin sem haldin er og nú í fyrsta sinn haldin á Íslandi. Hún er jafnframt stærsta leiklistarhátíð sem Bandalag íslenskra leikfélaga hefur staðið fyrir. Verndari hátíðarinnar er forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.

SÝNINGARNAR

Þriðjudagur, 10. ágúst

20.00 Opnunarhátíð í menningarhúsinu Hofi
21.00 ÍSLAND Umbúðalaust – Leikfélag Kópavogs

Miðvikudagur, 11. ágúst

14.00 NOREGUR Shabbana – Te-Nord, Osló
15.00 LITHÁEN A ´La Musicale – Druskininkai Theatre, Nisa
17.00 RÚMENÍA Írskt ljóð fyrir fiðlu og sál – Ludic Student Theatre, Iasi
20.00 SVÍÞJÓÐ Landamæragæsla – Teater nea, Stockholm

Fimmtudagur, 12. ágúst

14.00 FRAKKLAND Heilaþvottur – L´asse du Coin, Estoublon
16.00 ÍSLAND Birtingur  – Leikfélag Selfoss
20.00 FINNLAND Louhi og gullna stúlkan – Youth Theatre Floppi
21.00 LETTLAND Eftir Magritte – Auseklis Limbazi

Föstudagur, 13. ágúst

14.00 DANMÖRK Dökka skrúðgangan – Dunkelfolket, Brovst
16.00 FÆREYJAR Sjótekin – Royndin, Nólsoy
20.00 ÍSLAND Vínland – Freyvangsleikhúsið

Bandalag íslenskra leikfélaga skipuleggur leiklistarhátíðina í samvinnu við Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðið (NEATA), Norræna menningarsjóðinn, Menntamálaráðuneytið, Akureyrarbæ og Menningarhúsið Hof.

{mos_fb_discuss:3}