hugleikur_logoHugleikur
Hannyrðir og hagleiksmenn
Leikstjóri: Guðmundur Erlingsson

Í ágætu húsnæði sínu (en illa merktu) við Eyjarslóðina í Reykjavík hefur Hugleikur nú boðið til sýningar á Hannyrðum og hagleiksmönnum eftir Sigurð H. Pálsson. Fyrir utan stórar uppfærslur einu sinni til tvisvar á vetri er leikfélagið Hugleikur frægt fyrir frumsamin stuttverk sín, einþáttunga og örleikrit, sem hafa verið sýnd við nokkrar vinsældir. Mest af stuttverkunum hefur verið sýnt í Þjóðleikhúskjallaranum og Kaffileikhúsinu en einnig á Eyjarslóðinn upp á síðkastið. Einn af öðrum hafa þrír hannyrðaþættir Sigurðar H. Pálssonar í leikstjórn Guðmundar Erlingssonar orðið til sem liður í þessum dagskrám en nú er bætt um betur: Þættirnir eru orðnir fimm auk lítilla atriða, farið er fram og aftur í tíma og úr verður allra skemmtilegasta sýning.

Hrund Ólafsdóttir skrifar um sýningu Hugleiks, Hannyrðir og hagleiksmenn, sem frumsýnd var 16. janúar sl.

Í stuttu máli fjallar verkið um nokkra sanna karlmenn sem hittast reglulega heima hjá hver öðrum til þess að stunda  hannyrðir og handverk; svo sem að smíða, skera út laufabrauð, mála páskaegg og sauma vambir. Umræðuefnin eru afar hversdagsleg og alvarlegum atburðum tekið af æðrulausri karlmennsku; þeir láta sér flestir fátt um finnast þó að þeir týni tölunni ótt og títt. Atriðin milli þáttanna sýna einu kvenpersónu verksins gera sér dælt við félagana, einn af öðrum.   

Hannyrðir og hagleiksmenn hafa ýmislegt til að bera sem prýðir góðan gamanleik. Fyst má telja andstæðuna sem felst í því að karlmenn takast á við grófgerð eða fínleg handverk innan hefðbundins forms saumaklúbba kvenna. Áhorfendum er komið á óvart með gálgahúmor og orðaleikjum, ólíkindalátum og sterkri nærveru höfundar. Sigurður og Guðmundur eru frumlegir og hugrakkir þegar þeir láta reyna á áhorfendur með absúrd nálgun sem minnir á merk framúrstefnuleikskáld. Þarna er sérstaklega átt við nýja þáttinn sem gerist nálægt endalokum hannyrðaklúbbsins þegar rödd guðs (Sigurðar) heyrist úr steypuhrærivélinni sem hrærir blóðmörshræruna í sláturgerðinni og símtalið frá guði í lokaþættinum. Hin þráðbeina vísun í leikhúshugtakið „guð í vélinni“ er fyndin og vel til fundið að útskýra hugtakið í leikskránni ásamt fleiri staðreyndum úr sýningunni. Það má reyndar spyrja hvers vegna leikskráin var hroðvirknisleg og hvers vegna birtar eru myndir af aðstandendum þegar ekki sést hver er hvað.

Persónurnar eru misjafnlega vel skapaðar og leikurinn er einnig misjafn eins og gengur. Karlarnir tíu eru normal og ólánlegir í senn; þeir hafa við sig tragí-kómískt yfirbragð taparanna þó virðingarstaðan sé mismunandi í karlahópnum. Þríeykið Stulli, Lalli og Villi sem Hjalti Stefán Kristjánsson, Eggert Hilmarsson og Einar Þór Einarsson leika eru best mótuðu persónurnar. Þær hafa fengið að þróast í nokkur ár og kemur það fram í marglaga túlkun. V. Kári Heiðdal leikur ágætlega hinn hógværa Halla sem er ansi neðarlega í virðingarröðinni. Það er gaman að sjá nýjustu leikara Hugleiks koma sterka inn, svo sem Svanlaugu Jóhannsdóttur og Friðjón Magnússon og spunkunýja Hugleikarann Flosa Þorgeirsson sem fór léttilega með sitt.   

Umgjörð sýningarinnar er prýðileg og gaman að finna hvernig æfingahúsnæði verður fyrirhafnarlítið að þægilegu leikhúsi. Þó má spyrja hvers vegna húsgögnum sýningarinnar er staflað upp til hliðanna á leiksviðinu og hvers vegna húsgögnin eru svo mörg því skiptingarnar eru óþarflega flóknar og tímafrekar. Lýsingin var við hæfi og búningarnir skemmtilega lýsandi fyrir persónurnar. Falleg áhrifstónlist kom úr einum bassagítar sem Loftur S. Loftsson og nýliðinn Flosi Þorgeirsson léku á til skiptis.

Hannyrðir og hagleiksmenn er prýðileg skemmtun og að því sögðu er rétt að hnykkja á mannvali Hugleiks sem hefur svo stóran hóp sterkra leikara, höfunda og leikstjóra að annað eins sést líklega ekki í neinu öðru leikfélagi okkar.

Hrund Ólafsdóttir.