ImageÞann 31. mars verður gamanleikurinn Átta konur eftir Robert Thomas, í þýðingu og aðlögun Sævars Sigurgeirssonar, frumsýndur  á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Leikstjóri er Edda Heiðrún Backman en um tónlistarstjórn sér Samúel J. Samúelsson.

Verkið er “glæpsamlegur gamanleikur”, þar sem átta leikkonur leiða okkur inn í kvennaheim, fullan af óvæntum atburðum, ógnum og gríni. Þeim til fulltingis verður hinn þekkti látbragðsleikari Kristján Ingimarsson, sem kemur sérstaklega frá Danmörku til að taka þátt í sýningunni. Áhorfendur mega eiga von á því að leikkonurnar bresti í dans og söng þegar minnst varir. Átta villtar konur og einn látbragðsleikari fara hamförum á Stóra sviðinu í vor!

Fögur eiginkona, tvær ungar og óstýrilátar dætur, aðþrengd mágkona, gráðug tengdamamma, dularfull ráðskona og kynþokkafull þjónustustúlka. Húsbóndinn sjálfur liggur sofandi í rúmi sínu uppi á lofti. Eða hvað? Þegar sjö villtar konur eru samankomnar og sú áttunda bætist í hópinn getur allt gerst! Glæpsamlegur gamanleikur með söngvum og dansi!

Franska leikskáldið Robert Thomas (1927-1989) var einkum þekktur fyrir það að tvinna saman með góðum árangri form sakamálaleikrita og léttra gamanleikja. Þegar leikritið Átta konur var sýnt í París árið 1961 hlaut það leiklistarverðlaunin Prix du Quai des Orfèvres og var leikið við miklar vinsældir. Franski leikstjórinn François Ozon vann geysivinsæla kvikmyndagerð verksins árið 2002, þar sem margar af fremstu leikkonum Frakklands fóru á kostum.

ImageSævar Sigurgeirsson hefur unnið aðlögun verksins og samið nýja söngtexta. Sævar hefur samið fjölda leikverka fyrir áhugaleikhópa, en einnig verk fyrir Hafnarfjarðarleikhúsið, Ríkisútvarpið og Leikfélag Akureyrar. Hann var einn þriggja höfunda barnasýningar Þjóðleikhússins Klaufar og kóngsdætur sem frumsýnt var á síðasta leikári.

Edda Heiðrún Backman hefur leikið fjölmörg hlutverk bæði á sviði og í kvikmyndum frá því hún lauk námi frá Leiklistarskóla Íslands 1983. Hún hlaut verðlaun bæði sem besta leikkona í aðalhlutverki og besta leikkona í aukahlutverki þegar Gríman – Íslensku leiklistarverðlaunin voru veitt í fyrsta sinn árið 2003. Edda Heiðrún hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir leikstjórn sína á Mýrarljósi í Þjóðleikhúsinu, Svikum hjá LA, LR og Sögn og Sölku Völku í Borgarleikhúsinu.

Leikendur í Átta konum eru Birna Hafstein, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Kristján Ingimarsson, Margrét Guðmundsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir/Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir.

Þýðing, aðlögun og söngtextar eru í höndum Sævars Sigurgeirssonar, umsjón með tónlist hefur Samúel J. Samúelsson, Kristján Ingimarsson sér um sviðshreyfingar, búningar eru í höndum Elínar Eddu Árnadóttur, um lýsingu sér Hörður Ágústsson, höfundur leikmyndar er Jón Axel Björnsson, aðstoðarmaður leikstjóra er Jóhanna Jónas og leikstjóri er sem fyrr segir Edda Heiðrún Backman.