Þann 8. mars verður Alþjóðlegur baráttudagur kvenna haldinn hátíðlegur um allan heim eins og gert hefur verið í yfir 100 ár. Af því tilefni efnir Borgarleikúsið til sérstakrar styrktarsýningar á Eldhafi þann 7. mars næstkomandi þar sem allur ágóði rennur til samtaka UN Women á Íslandi. Sýningin hefst kl 19 og að henni lokinni gefst áhorfendum færi á að taka þátt í umræðum með aðstandendum verksins og fulltrúum UN Women.

UN Women starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna og jafnréttis og veitir fjárhagslega og faglega aðstoð til að bæta stöðu kvenna í fátækustu löndum heims og stríðsátakasvæðum. Samtökin eiga árs afmæli nú á föstudag, 24. febrúar. Leikritið Eldhaf eftir líbanska höfundinn Wajdi Mouawad hefur farið sigurför um heiminn, verið þýtt á tuttugu tungumál og sýnt í yfir 100 uppsetningum. Eldhaf rekur sögu móður í stríðshrjáðu landi, harmleikur um fortíðina sem skapar nútímann og höfðar beint til hjartans. Verkið var frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins 26. janúar og hefur hlotið fádæma viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda. Leikstjórn er í höndum Jóns Páls Eyjólfssonar og í burðarhlutverkum eru þau Unnur Ösp Stefánsdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Guðjón Davíð Karlsson og Lára Jóhanna Jónsdóttir.

Um Eldhaf Kona deyr á sjúkrahúsi. Börn hennar, tvíburarnir Símon og Janine, eru boðuð á fund lögfræðings vegna erfðaskrár móður þeirra. Hann afhendir þeim sitt hvort bréfið frá móðurinni og segir það hinstu ósk hennar að tvíburarnir afhendi bréfin í eigin persónu. Annað á að færa bróður þeirra sem þau vissu ekki að væri til og hitt föður þeirra sem þau töldu látinn. Systkinin halda með bréfin í óvenjulega ferð sem afhjúpar þeim áður ókunna fortíð móður þeirra og hræðilegt leyndarmál. Höfundur verksins Wajdi Mouawad (1968) er fæddur í Líbanon en flúði með foreldrum sínum til Parísar og býr nú í Montréal í Kanada þar sem hann starfar sem leikari, leikstjóri, leikhússtjóri og leikskáld. Eldhaf er hans þekktasta verk, hefur verið þýtt á tuttugu tungumál, farið sigurför um heiminn og verið sýnt í yfir 100 uppsetningum á síðustu árum.

UN Women er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur aðeins í þágu kvenna og jafnréttis og veitir fjárhagslega og faglega aðstoð til að bæta stöðu kvenna í fátækustu löndum heims, á stríðshrjáðum svæðum. Íslenska landsnefndin hefur það hlutverk að vekja athygli á stöðu kvenna í þróunarlöndum, standa vörð um réttindagæslu þeirra og styrkja starfið fjárhagslega. Með þessum aðgerðum vinnur landsnefndin beint að því að bæta líf og efla stöðu kvenna og barna þeirra um heim allan. UN Women fagnar eins árs afmæli 24. febrúar næstkomandi.

{mos_fb_discuss:2}