ImageLaugardaginn 1. apríl frumsýnir Leikfélag Húsavíkur farsann Tveir tvöfaldir eftir Ray Cooney. Þýðingu verksins gerði Árni Ibsen en leikstjóri er María Sigurðardóttir. Sýnt er í Samkomuhúsinu á Húsavík og hefst frumsýning kl. 15:00. Tveir tvöfaldir var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1998 og naut talsverðra vinsælda en þetta er í fyrsta skipti sem íslenskt áhugaleikfélag setur leikritið upp. Langt er um liðið síðan Leikfélag Húsavíkur setti síðast upp farsa og þótt mörgum kominn tími til.

Tveir tvöfaldir segir frá stjórnmálamanni nokkrum og aðstoðarmanni hans. Þeir skrá sig inn á hótel þar sem stjórnmálamaðurinn hyggst eiga huggulega nótt með viðhaldi sínu en þegar eiginkona hans mætir á svæðið lendir það á aðstoðarmanninum að bjarga málunum. Ray Cooney er einn þekktasti farsahöfundur samtímans, skrifaði m.a. hið geysivinæla verk Með vífið í lúkunum og nú standa yfir í Borgarleikhúsinu æfingar á farsa eftir hann sem hlotið hefur nafnið Viltu finna milljón?

ImageÞetta er í fimmta skipti sem María Sigurðardóttir leikstýrir hjá leikfélaginu, áður hefur hún leikstýrt Ofurefli (86-87), Gaukshreiðrinu (91-92), Tobacco Road (94-95) og Þjóni í súpunni (03-04). Með helstu hlutverk í Tveimur tvöföldum fara Hjálmar Bogi Hafliðason, Guðný Þorgeirsdóttir og Þorkell Björnsson. Leikmynd hönnuðu Sveinbjörn Magnússon og Sigurður Sigurðsson í samvinnu við leikstjóra og um lýsingu sáu Jón Arnkelsson og Ingvar Erlingsson.

Þar sem ekki reynist unnt að sýna nema í apríl verður verkið sýnt óvenju þétt og ekki eftir neinu að bíða með að drífa sig í gamla Samkomuhúsið á Húsavík!