ImageÁ morgun föstudag 19.maí frumsýnir Leikfélag Reykjavíkur á Nýja sviði Borgarleikhússins, gamanfarsann Viltu finna milljón? eftir Ray Cooney.
Landslið grínara fer á kostum í þessum frábæra gamanleik í snilldarþýðingu Gísla Rúnars Jónssonar.
 

ImageLeikarar: Eggert Þorleifsson, Helga Braga Jónsdóttir, Marta Nordal, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Bergur Þór Ingólfsson, Gunnar Hansson, Guðmundur Ólafsson og Theodór Júlíusson. Leikmynd: Sigurjón Jóhannsson. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Hljóðhönnun: Jakob Tryggvason. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Leikgerfi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Tónlist: Sniglabandið. Þýðing og staðfærsla: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Þór Tulinius.
 
Verkið heitir á frummálinu Funny money og er eftir Ray Cooney. Leikritið hefur farið sigurför um Evrópu og Ameríku síðan það var frumsýnt í London 1994.  Ray Cooney er að góðu kunnur íslenskum áhorfendum en gleðileikurinn “Með vífið í lúkunum” í leikstjórn Þórs Tulinius, var sýnt tvö leikár í röð fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu.
 
Hvað myndir þú gera ef þú fyndir tösku með 400 milljónum og vissir að enginn gæti farið til lögreglunnar? Verkið segir frá hjónunum Haraldi og Ingibjörgu, sem leikin eru af Eggerti Þorleifssyni og Helgu Brögu Jónsdóttur. Haraldur hefur unnið hjá skattinum á lúsarlaunum svo lengi sem elstu menn muna, einn daginn finnur hann fulla tösku af peningum, þetta er vanur maður sem sér að að féð er illa fengið en hann ákveður að þetta sé hans tækifæri til betra lífs og fer beint í að panta flug aðra leiðina út í heim. En málið er vitaskuld ekki svo einfalt og heilmiklar flækjur, lygar og taugaveiklun fylgja í kjölfarið.