Leikfélag Kópavogs auglýsir síðustu sýningar á ALF eða Andspyrnuhreyfingu ljóta fólksins. Leikstjóri er Oddur Bjarni Þorkelsson en hann er jafnframt höfundur verksins ásamt Guðjóni Þorsteini Pálmarssyni. Sýnt er í Hjáleigunni í Kópavogi.

ALF er blóðugt háð og óhugguleg ádeila á taumlausa útlitsdýrkun. Þegar þessi misfríði en jafnskemmtilegi hópur fólks hóf samstarf sitt kom í ljós að ýmsum fannst pottur brotinn í samfélagi okkar. Allir höfðu tekið eftir einu og öðru sérkennilegu í umhverfinu en ekki hugsað nánar um það fyrr en þessi hópur kom saman. Samsæriskenningar spruttu upp og andspyrnuhreyfingin varð til. Endalaust er verið að hygla og hampa fallegum í landinu og virðist það ná til æðstu toppa. Nánari eftirgrennslan leiddi í ljós viðamikið samsæri. Margar spurningar spruttu fram en einungis fáum var svarað með óyggjandi hætti. En hálfbrunninn bæklingur sem fannst í dimmum afkima World Class þótti vissulega ýta undir ýmsar grunsemdir. 

Af hverju fékk Decode 20 milljarða uppáskrift frá Ríkisstjórninni?
Af hverju eigum við svona margar fegurðardrottningar?
Af hverju eru karlmennirnir ekki eins fallegir?
Er eitthvað í mjólkinni frá emmess?

FF – (Fallega fólkið) hefur náð takmarki sínu með framleiðslu á fallegu kvenfólki hér á Íslandi.  Síðasta eintak var reyndar örlítið tileygt, en það hefur nú þegar verið lagfært. En um karlmennina gegnir öðru máli; ef þeir hafa eitt, skortir annað.  Oft á tíðum eru þeir ofbeldishneigðir, kjánalegir, drykkjusjúkir – í raun hálfgerð sirkusfrík. En nú er annað uppi á teningnum, Platonis er nánast fullskapaður og eingöngu hinir ósérhlífnu meðlimir ALF geta stöðvað FF. En mun það takast…

Síðustu sýningar:
miðvikudagur 24. maí kl. 23:30 – Miðnætursýning
föstudagur 26. maí kl. 21
sunnudagur 28. maí kl. 21
 
Miðapantanir í síma 554 1985 og á midasala@kopleik.is.  Miðaverð er 1.500 kr.  Frekari upplýsingar á www.kopleik.is