Laugardaginn 12. janúar verður Skoppa og Skrítla í leikhúsinu frumsýnt í Borgarleikhúsinu. Skoppa og Skrítla í leikhúsinu var fyrsta leiksýning þeirra vinkvenna. Hún var frumsýnd 2006 í Þjóðleikhúsinu og gekk fyrir fullu húsi í nær 100 skipti. Sýningin fór í margar leikferðir erlendis m.a nokkrum sinnum til Bandaríkjanna, Danmerkur og til Afríku. Síðan hefur margt á dagana drifið hjá þeim vinkonum. Leikritin eru orðin þrjú, þáttaraðirnar orðnar fjórar, bíómynd, DVD diskar, geisladiskar og ýmislegt fleira. Leikstjóri er Þórhallur Sigurðsson en handrit gerðu Hrefna Hallgrímsdóttir og leikhópurinn.

Í sýningunni er fjallað um flest það sem börn á leikskólaaldri fást við í sínu daglega lífi, s.s. liti, tölur, rím o.s.frv. og allt tengist það töfraheimi leikhússins á einhvern hátt. Áhorfendur eru virkjaðir með í söng og dansi og við að leysa hinar ýmsu þrautir sem á vegi verða í framvindu leiksins. Skoppa og Skrítla nota líka tákn með tali svo að sem flest börn fái notið sýningarinnar.

Skoppa og Skrítla í leikhúsinu er kjörin sýning fyrir þá áhorfendur sem eru að stíga sín fyrstu spor í leikhúsheiminum.  Þar fá þau að upplifa töfrana sem leikhúsið hefur að geyma og ekki má gleyma undirtitlinum, leikhúsupplifun með söng og dansi. Sýningin í dag er nefnilega upplifun, kannski sú fyrsta, á leikhúsinu og göldrum þess.  Stund sem vonandi flest börn og foreldrar geta notið saman.

Leikmynd og búninga hanna Katrín Þorvaldsdóttir, Gunnhildur Þorsteinsdóttir og leikhópurinn og lýsingu gerir Magnús Helgi Kristjánsson. Tónlist er eftir Hall Ingólfsson og myndbrot Ægi J.Guðmundsson. Leikarar í verkinu eru Linda Ásgeirsdóttir, Hrefna Hallgrímsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir.