Leikfélagið Hugleikur sýnir einþáttungadagskrá Kvikan streymir laugardagskvöldið 24. apríl kl. 20:00. Sýnt er í æfingahúsnæði félagsins að Langholtsvegi og vegna sóttvarnarráðstafana komast ekki nema örfáir áhorfendur að. Því verður bryddað upp á nýjung hjá félaginu og sýningunni streymt beint gegnum Facebook.
Dagskráin, sem fengið hefur nafnið Kvikan streymir, er fyrsta verkefnið sem Hugleikur setur upp síðan sýningum lauk á söngleiknum Gestagangi í lok árs 2019. Starfsemi félagsins hefur síðan heimsfaraldurinn skall á einskorðast við námskeiðshald og lauk leiktúlkunarnámskeiði í umsjá Bjarna Snæbjörnssonar nú á vormánuðum (eftir nokkrar frestanir vegna fjöldatakmarkana).
Að námskeiði loknu völdu þátttakendur stuttverk úr fjölbreyttu safni félagsins og setja upp, ýmist í eigin leikstjórn eða með liðsauka frá öðrum Hugleikurum.
Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með samfélagsmiðlum félagsins þar sem nánari upplýsingum um beint streymi verður komið á framfæri.
Þeir áhorfendur sem hafa hug á því að mæta eru beðnir um að senda tölvupóst á netfang félagsins, hugleikur hjá hugleikur.is, með upplýsingum um nöfn og kennitölur þeirra sem myndu vilja sitja saman. Eins og gefur að skilja ræðst endanlegur fjöldi áhorfenda í litlu sýningarrými að stórum hluta af fjarlægðarmörkum og því ekki hægt að tryggja að allir komist að sem vilja.
Ljósmynd frá Tryggva Má Gunnarssyni; myndataka.net