Fróði og allir hinir grislingarnir eftir Ole Lund Kirkegaard
Þýðandi Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson / Lög og söngtextar Valgeir Skagfjörð
Leikstjórn Örn Alexandersson
Fá leikfélög á landinu hafa verið jafn dugleg við að sinna æskulýðsstörfum og Leikfélag Kópavogs. Vinna með börnum og unglingum hefur jafnan skipað veglegan sess þar á bæ. Þannig hefur félagið alið upp kynslóð eftir kynslóð af leikurum og leikhúsáhugafólki. Sýningin Fróði og allir hinir grislingarnir, sem frumsýnd var 3. mars síðastliðinn, er dæmi um þetta. Hér er á ferðinni barna- og unglingasýning með tiltölulega breiða skírskotun, full af galsa, húmor og söng.
Það var eftirvænting í loftinu í leikhúsi Kópavogs þegar undirritaður kom á staðinn til að sjá aðra sýningu verksins. Fordyrið var fullt af börnum, unglingum, foreldrum öfum og ömmum, aldursspönnin var líklega frá tveimur árum til sjötugs. Svo var opnað og við völdum okkur sæti á fremsta bekk til að missa ekki af neinu.
Stúlkubarnið mér við hlið, fjögurra ára, skoðaði leikskrána sína og horfði yfir sviðið þar sem tónlistarmaður lék á hljómborð og sagði. „Þetta er fallegt“. Og það var alveg rétt, þetta er falleg sýning, falleg sviðsmynd, falleg lýsing, fallegir búningar og fallegur leikhópur, líka ljóti og leiðinlegi fýlupokinn. Sýningin fór rólega af stað en síðan brast fjörið á þegar Fróði og allir hinir grislingarnir birtust á sviðinu. Fyrir hlé var gáski og gleði í fyrirrúmi. Eftir hlé var meiri spenna í framvindunni og stundum hætta á ferðum, enda var þetta þá orðinn eltingarleikur við dularfulla þjófa. Leikhópurinn var ansi góður fannst okkur. Ég skemmti mér best þegar fýlupokinn Stormur var á sviðinu með gæðakonunum í Hornhúsinu, sem fannst hann svo ágætur. Sessunaut mínum þótti mest gaman þegar grislingarnir voru að gera sprell og skammarstrik.
Það eru margir söngvar og góð tónlist í sýningunni sem er skemmtilega flutt af þriggja manna hljómsveit á sviðinu en meðlimirnir höfðu einnig hlutverk í leiknum. Svo heyrðist líka í horni uppi á svölum og trumbum baksviðs. Hæst reis söngurinn í fagurlega rödduðum dúett gæðakvennanna góðu þegar þær tjáðu heitar tilfinningar sínar í garð fýlupokans leiðinlega. Börnin lifðu sig inn í sýninguna og stundum kölluðu þau fram í til að leiðbeina leikurunum. Því höfðu þeir greinilega ekki búist við og gripu ekki tækifærið til að leika á móti röddum úr sal.
Leikstjórnin er vel af hendi leyst, einkum hvað varðar persónusköpun og vinnu með leikurum. Verkið er dönsk leikgerð af einni af hinum þekktu sögum Ole Lund Kirkegaards. Söguþráðurinn er fremur léttvægur og hefði þolað uppfærslu og aðlögun hér og þar en út í það verður ekki farið hér.
Við fórum hin ánægðustu af sýningunni og ræddum hana í bílnum á leiðinni heim. Þá kom gagnrýnispunkturinn frá barninu. „Það var ekki nógu mikil sulta á brauðsneiðinni sem Fróði henti í kennslukonuna.“ Og það er alveg rétt það hefði mátt vera miklu meiri sulta, að öðru leyti var þessi sýning frábær.
Árni Hjartason