Klaufar og kóngsdætur eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason
Freyvangsleikhúsið
Leikstjórn: Ármann Guðmundsson
Brynhildur Þórarinsdóttir rýnir sýningu

Fimm manna fjölskylda frá Akureyri lagði leið sína í Freyvangsleikhúsið sunnudaginn 25. október. Ætlunin var auðvitað að sjá Klaufa og kóngsdætur. “Nú þurfið þið að fylgjast vel með því að við eigum að meta leiksýninguna,” sagði mamman og börnin þrjú settu upp ábúðarfullan svip. Þau eru 6, 7 og 10 ára og reynt leikhúsfólk, hafa t.d. séð ölll barnaleikrit í Freyvangi undanfarin ár. Sú elsta sá fyrsta leikritið sitt þar, Kardimommubæinn, vorið 2006, þá rúmlega eins árs. Þá fundust henni gardínurnar á ganginum mest spennandi. Nú sátu þau hins vegar öll kyrr í sínum sætum og fylgdust af athygli með sýningunni. Miðbarnið tók hlutverk sitt mjög alvarlega og sat drengurinn hljóður lengi vel. Undir lok fyrri hluta hallaði hann sér þó að móður sinni og hvíslaði: “Þetta er góð sýning.”

Litla StúlkanKlaufar og kóngsdætur er skemmtileg fjölskyldusýning; leikgerð eftir sex ævintýrum H.C. Andersen, Eldfærunum, Næturgalanum, Hans klaufa, Svínahirðinum, Förunautnum og Litlu stúlkunni með eldspýturnar. Þessi ævintýri eru vel þekkt nema kannski Förunauturinn og gaman að hann skuli hafa fengið að fljóta með. Ævintýrunum sex er ekki steypt saman, hvert þeirra fær sitt rými, en H.C. Andersen sjálfur gengur fram á sviðið til að þræða þau saman. Auk þess bregður ljóta andarunganum fyrir við og við, hann vaggar milli ævintýra, kaldur og smáður, bæði brjóstumkennanlegur og spaugilegur. Hann er nógu þekktur til að geta birst svona án samhengis, ungu áhorfendurnir í salnum voru ekki lengi að átta sig á því hver hann væri.
H.C. Andersen rammar leikritið inn á virðulegan hátt, hávaxinn og spariklæddur með haán pípuhatt gnæfir hann yfir leikhópinn og minnir á mikilvægasta hlutverk sitt; að blása nýju lífi í hið forna ævintýraform. Í upphafi sýningarinnar stendur gamla, danska skáldið hreinlega sjálft á sviðinu. Skugga leikarans, Valdimars Gunnarssonar, er varpað á vegg og hann er nákvæmlega eins og skuggamyndin af vangasvip skáldsins sem prýðir dönsku útgáfuna af ævintýrum H.C. sem gagnrýnandi á í bókahillu heima. Það þarf ekki alltaf flókna töfra til að heilla.

Dátinn sem prílaði ofan í tré til að sækja eldfæri nornarinnar heillaði hins vegar börnin. Það er ekki auðvelt að búa til hund með augu á stærð við Sívalaturninn fyrir lítið leiksvið eins og í Freyvangi. Það tókst samt prýðilega að gera hundana þrjá hæfilega óhugnanlega en um leið spaugilega. Í þessu fyrsta ævintýri sýningarinnar eru framdir alvöru galdrar. Dátinn með eldfærin heggur höfuðið af galdranorninni svo það skoppar af búknum. Yngsta manneskjan pældi mikið í þessu í hléinu og var enn að velta því fyrir sér eftir sýninguna hvernig þetta hefði verið hægt. “Kannski var hún hæna,” stakk hún glottandi upp á af því að hún veit að hænur vappa um í smátíma þó að þær hafi verið hálshöggnar. Nokkrum dögum seinna hafði hún leyst gátuna og var ansi drjúg með sig. Rétt er að geta þess að engu blóði var úthellt við þessa afhöfðun en hún hrærir hæfilegum skammti af hryllingi saman við skemmtunina sem er jú svo nauðsynlegt þegar maður lifir sig inn í ævintýri.

Hans KlaufiKlaufar og kóngsdætur var skrifað fyrir Þjóðleikhúsið í tilefni af 200 ára ártíð H.C. Andersen árið 2005. Verkið skrifuðu ljótu hálfvitarnir þrír, Sævar Sigurgeirsson, Þorgeir Tryggvason og Ármann Guðmundsson og hlaut það Grímuverðlaunin fyrir barnasýningu ársins 2005. Gagnrýnandi sá ekki sýninguna 2005 og hefur því ekki samanburð enda skiptir hann í sjálfu sér ekki máli. Leikrit er í raun nýtt verk í hvert sinn sem það er sett upp. Leikstjórn núna er í höndum eins af höfundum verksins, Ármanns Guðmundssonar. Höfundarnir þrír sömdu einnig tónlistina ásamt Skúla Gautasyni sem er tónlistarstjóri sýningarinnar. Allir eru þeir slyngir lagahöfundar og tónlistin lyftir sýningunni heilmikið – um hljóðfæraleik sjá tíu spilandi leikarar með hin ýmsustu hljóðfæri.

Við höfum séð allar fjölskyldusýningar Freyvangsleikhússins síðustu 9 ár eða svo. Leikhópurinn núna virðist yngri en oft áður, fjöldi barna og unglinga tekur þátt í sýningunni, bæði í burðarhlutverkum og sem aukapersónur. Leikstjóranum tekst ágætlega að ná því besta fram í hópnum og röddin á eftir að styrkjast þegar hálsinn stækkar. Sumir krakkanna hafa reyndar öðlast talsverða sviðsreynslu. Emil í kattholti er orðinn unglingur og lunkinn gamanleikari; Sigurður Bogi Ólafsson framkallaði mörg hlátrasköll í salnum í gervi Hans klaufa. Hann er mjög fjölhæfur, birtist líka með gítar og úklúlele á sviðinu. Eik Haraldsdóttir hefur líka bæði leikið og sungið fyrir framan áhorfendur. Henni tekst prýðilega upp, sérstaklega sem litla stúlkan með eldspýturnar. Járnbrá Karítas Guðmundsdóttir lék ljóta andarungann skemmtilega. Egill Andrason og Arndís Eva Erlingsdóttir voru góð í hlutverkum svínahirðisins og yfirborðskenndu prinsessunnar sem hann gafst upp á. Ævintýrin eru sex svo það gefur augaleið að leikararnir þurfa að bregða sér í mörg hlutverk. Ragnar Bollason er til dæmis í aðalhlutverki í Eldfærunum og Förunautnum og er dásamlega spjátrungslegur sem annar bróðirinn í Hans klaufa. Svefntilþrif Ragnars í Förunautnum þóttu ungu gagnrýnendunum mjög fyndin. Þetta má ekki skilja svo að aðrir leikarar standi sig ekki vel þó að upptalningin verði ekki lengri hér.

FörunauturinnBúningarnir, sem Jónborg Sigurðardóttir hannaði, eru vel heppnaðir og kórónurnar sérstaklega flottar. Það eru auðvitað margar kórónur í svona ævintýrasýningu. Kóngafólk er alltaf eins í ævintýrunum. Það er engin þörf á að strika undir staðalmyndina með því að setja gull og demanta á hausinn á því. En kórónur gerðar úr hnífapörum, þær vekja athygli. Þegar börnin höfðu tekið eftir skeiðakórónunni biðu þau spennt eftir þeirri næstu. “Úr hverju skyldi hún vera?” var hvíslað, og gafflarnir slógu í gegn þegar þeir komu í ljós. Gervi svínanna í Svínahirðinum voru einföld og sniðug en nornirnar í Förunautnum vöktu greinilega óhug í salnum og jafnvel heyrðist eitt og eitt “oj”. Sérstaklega þótti yfirnornin óhugnanleg með handarbein um hálsinn og dinglandi augna-eyrnalokka. Vængir svansins í lokin voru hins vegar himneskir. Ekki er hægt annað en að nefna líka búninga sjoppusölufólksins sem voru einkar virðulegir. Það gleymist stundum að hléið er nauðsynlegur hluti af leikhúsupplifun barna – þau brenna svo í skinninu að spjalla eftir klukkutíma setu og þurfa að spyrja út í ýmsa þætti verksins. Það var vel til fundið að halda töfrum leikhússins yfir sjoppunni líka með búningum og súkkulaðihjúpuðum prinsessukossum.

Galdurinn við fjölskyldusýningar er að skemmta börnunum þannig að foreldrarnir hafi líka gaman að. Það tókst ágætlega hér. Það er þó ekki hægt að gleyma því alveg að ævintýri Andersen eru 150 ára gömul og skrifuð inn í samfélag 19. aldar með hliðsjón af æfagamalli munnlegri hefð. Leikritið er því bæði fornt og splunkunýtt. Foreldrarnir andvörpuðu svolíitið yfir vonbiðlum sem kyssa sofandi stúlkur og kvenskössum sem tamin eru með hrísvendi, en litla, fátæka stúlkan sem enginn tekur eftir – stendur hún ekki einmitt núna á landamærum Evrópu með eldspýturnar sínar?

SvínahirðirinnLitla stúlkan með eldspýturnar er átakanleg saga og meðferð hennar hér er fullkomlega við hæfi. H.C. Andersen/Valdimar Gunnarsson flytur söguna í formi kvæðis á lágstemmdan og áhrifaríkan hátt meðan einmana stúlkan, Eik Haraldsdóttir, hreyfir sig hljóðlaust á sviðinu.

Því miður fór sagan um litlu stúlkuna með eldspýturnar svolítið fyrir ofan garð og neðan hjá börnunum í salnum þar sem ekki heyrðist nógu vel í Valdimar. Fullorðna fólkið þekkir söguna hins vegar nógu vel til að tárast þó að ekki heyrist hvert einasta orð og þá varð hinn lágværi rómur hreinlega táknrænn. Það hækkaði þó í Valdimar undir lok senunnar svo að atriðið ætti að vera auðvelt að laga.

Í heild er þetta býsna fagmannlega unnin sýning með ungum og upprennandi leikurum í bland við reyndari áhugaleikara. Verkið sjálft er vel skrifað og dregur fram helstu höfundareinkenni H.C. Andersen, bæði glens og trega. Boðskapur góðra ævintýra stendur alltaf fyrir sínu; ekki dæma eftir útlitinu, það borgar sig að gera góðverk, hugsaðu um náungann og láttu ekki glepjast af dýrum hlutum. Það er ágætt fyrir okkur öll að rifja þetta upp við og við.

Brynhildur Þórarinsdóttir