Borgarleikhúsið frumsýndi í vikunni sem leið leikritið Elsku barn eftir breska leikskáldið Dennis Kelly í þýðingu Hafliða Arngrímssonar. Elsku barn er nístandi leikrit sem fjallar um óbærilegan sársauka og lætur engan ósnortinn. Hér er á ferð heimildaleikrit sem fjallar um tilraunir fólks til að leita sannleikans. Í þeirri mögnuðu leit komumst við á snoðir um margvíslega birtingarmynd lyginnar. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson.

Ung móðir er sökuð um að hafa myrt börn sín tvö. Þó er alls ekki ljóst hvort um morð er að ræða eða sorglegt slys. Málið vekur athygli almennings og áhuga hinna ólíklegustu aðila. Leikritið er byggt á opinskáum viðtölum við alla aðila málsins. Engu hefur verið bætt við og allt er orðrétt haft eftir. Hvert er eðli sannleikans? Veldur í raun hver á heldur? Er hægt að lifa með ófyrirgefanlegum glæp? Er hægt að hreinsa manneskju af glæp sem ekki var framinn? Hvert er gjaldið fyrir réttlæti?

Dennis Kelly (1970) er í hópi fremstu leikskálda Breta um þessar mundir og hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem eitt áhugaverðasta leikskáld Evrópu. Frá árinu 2003 hefur hann skrifað alls átta leikrit, m.a. Love and Money sem var tilnefnt til Olivier verðlaunanna og Munaðarlaus sem sýnt var hér á landi síðasta vetur við góðar undirtektir.

{mos_fb_discuss:2}