Einkamál.is er nýjasta leikrit Árna Hjartarsonar. Dramatískur fjölskyldugamaleikur um samtímafjölskyldu í heimatilbúnum vanda sem Hugleikur æfir nú í húsnæði félagsins við Eyjarslóð. Ólíkt mörgum Hugleikshöfundum sækir Árni sér jafnan efnivið í samtímamál, jafnvel þjóðfélagsleg álitamál, og á það stundum til að vera forspár. Af því tilefni er rétt að taka fram að leikritið er skrifað áður en umræðan um staðgöngumæðrun fór af stað.
Hvað gerir barnelskur karl þegar hann kemst að því að einkasonur hans og tengdadóttir hafa ákveðið að eignast ekki börn? Hann tekur málið auðvitað í sínar hendur. En þó hann sé reyndar góður í stærðfræði þá reynist þetta vera dæmi sem hann nær ekki að reikna til enda.
Níu valinkunnir Hugleikarar fara með hlutverk í verkinu en Hulda B. Hákonardóttir og Þorgeir Tryggvason leikstýra. Frumsýning verður að Eyjarslóð 9 föstudaginn 15. apríl og miðapantanir fara fram á www.hugleikur.is.
{mos_fb_discuss:2}