ImageLeikritið Hungur eftir Þórdísi Elvu Þovaldsdóttur Bachmann verður frumsýnt þann 18. febrúar í Borgarleikhúsinu. Átraskanir eru vágestur sem vert er að beina kastljósum að. Rop, prump, garnagaul og önnur búkhljóð í aukahlutverki.

Hvað gerist þegar tveir lystarstolssjúklingar mynda vináttutengsl? Hvað gerist þegar offitusjúklingur finnur sér maka, sem elskar hvern einasta blett á líkama hennar? Hvernig geta fjórir einstaklingar uppfyllt óraunhæfar kröfur heimsins um útlit og líkamlegt atgervi?

Þann 18. febrúar mun listfyrirtækið Fimbulvetur ehf. frumsýna leikritið Hungur á Litla sviði Borgarleikhússins. Leikritið fjallar fólk, um manneskjur með drauma og þrár, en ekki sjúkdómana sem það er haldið. Hungur er alls ekki fræðsluleikrit, heldur veitir áhorfendum vægðarlausa innsýn í heim útlitsdýrkunar. Sem betur fer þekkja ekki margir þennan heim af eigin raun en flestir hafa af honum afspurn í einhverri mynd. Verkið spyr áleitina spurninga sem vonandi verða til þess að opna umræðuna um þennan áhyggjuverða faraldur.

Image Átraskanir eru ört vaxandi vandamál á Íslandi. Átröskunarsjúklingar skipta þúsundum og fjöldi beiðna um innlagningu á geðdeild tvöfaldast ár frá ári. Nýjar deildir hafa verið opnaðar á Landspítalanum Háskólasjúkrahúsi til þess að bregðast við þessari þróun, og sjálfshjálparhópum sem takast á við þessa vá hefur fjölgað. Átraskanir hafa ekki bara alvarleg áhrif á einstaklingana sem af þeim þjást, heldur einnig fjölskyldur þeirra, atvinnurekendur og á fyrirmyndir í fjölmiðlum. Það er því eðlilegt að umræða um það mein sem átröskun er hafi verið mikil undanfarin ár.

Þórdís Elva skrifaði fyrstu útgáfuna af Hungri í júní 2004.  Verkið hefur síðan ferðast um heiminn þveran og endilangan, því leikskáldið var valið til þess að vera fyrsti fulltrúi Íslands á ráðstefnu í Ástralíu fyrir 50 bestu leikskáld heims undir 25 ára aldri. Þar var verkið unnið í samvinnu við marga af fremstu dramatúrgum heimsins.

Þórdís hefur getið sér gott orð í leiklistinni, m.a. sem aðstoðarleikstjóri Glæps gegn diskóinu sem sýnt hefur verið á fjölum Borgarleikhússins og fengið feykigóða dóma. Þá hefur hún einnig skrifað leikritið Brotið, sem sett var upp af Hafnarfjarðarleikhúsinu og útvarpsleikritið Kista töframannsins, sem Ríkisútvarpið frumflutti í nóvember síðastliðnum.

Leikstjóri Hungurs er Guðmundur Ingi Þorvaldsson. Aðalhlutverk eru í höndum Helgu Brögu Jónsdóttur, Þorsteins Bachmann, Ástu Sighvats Ólafsdóttur og Elmu Lísu Gunnarsdóttur