Sagan um Gauk Trandilsson í Stöng var til, hana átti að rita eftir Njálu í Möðruvallabók, en því miður er sagan nú glötuð. Annað hvort brann hún í handritabrunanum mikla í Köbenhavn eða bókin sökk með handritaskipi því er fórst í hafi á þrettándu öld. En nú hefur Vilborg Halldórsdóttir leikkona- og leikstjóri bætt úr þessu, skrifað leikverk um ævi og ástir Gauks sem leikdeild Ungmennaféalgs Gnúpverja sýnir nú í leikstjórn hennar í félagsheimilinu Árnesi.
Gauk Trandilsson leikur Þórður Freyr Gestsson og Þuríði Arngeirsdóttur húsfreyju á Steinastöðum leikur Edda Pálsdóttir. Tónlistarstjórn er í höndum Þórdísar Heiðu Kristjánsdóttur tónlistarmiðlara, en höfundur tónlistar er Örlygur Benediktsson tónsmiður á Eyrarbakka. Magnea Gunnarsdóttir söngkona í Þrándarholti sá um raddþjálfun; Guðmundur Sigurðsson á Akranesi sérsmíðaði nokkur forn-hljóðfæri auk fleiri muna fyrir sýninguna; og hljóðfæraleik annast Þórdís Björt Sigþórsdóttir. Valgerður Auðunsdóttir sá um búningasaum. Ekkert rafmagn er notað í hljóðheimi sýningarinnar, heldur er notast við trommur, horn, bein, steina og mannsröddina og leikið á flautur úr fuglsbeinum Hljóðmynd verksins er afrakstur af samvinnu leikhóps, leikstjóra og ofangreindra. Ljósmyndina tók Bjarni Grímsson.
Það er því leikið, sungið og barist þessar helgarnar í Árnesi – sjón er sögu ríkari. Leikendur eru fjórtán talsins. Miðasala og allar upplýsingar eru á http://gaukssaga.123.is
Næstu sýningar verða:
laugardagskvöldið 9. apríl kl. 20.00
sunnudaginn 10. apríl kl. 15.00
föstudaginn 15. apríl kl. 20.00
laugardaginn 16. apríl kl. 20.00 – lokasýning
{mos_fb_discuss:2}