Höfrungur leikdeild á Þingeyri hefur verið í hörku stuði í leikhúsinu síðustu ár og sett upp hverja stórsýninguna á fætur annarri. Í fyrra var það Kardemommubærinn þar á undan Galdrakarlinn í Oz og þar áður sjálf Lína Langsokkur. Enn er bætt í ævintýrið því föstudaginn 7. apríl frumsýnir leikdeildin Dýrin í Hálsaskógi. Eins og allir vita þá er þetta leikritið með forsetalaginu. Já, laginu sem forsetinn söng svo listilega um daginn og hefst svo: Dvel ég í draumahöll.

Höfundur leiksins er hinn norski Thorbjörn Egner en gaman er að geta þess að teiknimynd með Dýrunum verður einmitt frumsýnd sama dag og Dýrin í Dýrafirði. Það eru því lítil lát á vinsældum Dýranna í Hálsaskógi og kannski er bara nýtt æði að hefjast hér á landi, aftur já og svo aftur og aftur. Verkið hefur líka elst sérlega vel því enn eru lögmálin þau sömu um að öll dýrin, og mættum bæta við mönnum líka, í skóginum eiga að vera vinir.

Sýningar á Dýrunum í Hálsaskógi í miðstöð leiklistar á Vestfjörðum, félagsheimilinu á Þingeyri, verða alls fimm. Frumsýning núna á föstudag kl.19.30, önnur sýning daginn eftir kl. 13 og á páskum verða þrjár sýningar; ein sýning á fimmtudag, Skírdag, kl.16 og svo tvær á hinum langa föstudegi sú fyrri klukkan 13 og hin seinni klukkan 17.

Miðasala á allar sýningar er löngu hafin og gengur mjög vel. Miðasölusími er 659 8135.

Dýrin í Hálsaskógi er sannarlega stórsýning á alla vegu. Alls taka 17 leikarar þátt í sýningunni og annar eins hópur og fleiri til starfa að tjaldabaki. Margt þarf jú að gera þegar ævintýri eru sett á svið. Það þarf að búa til skóg, farða mennina og breyta þeim í dýr, lýsa upp ævintýrið og svo ótal margt fleira. Leikstjóri sýningarinnar er Elfar Logi Hannesson.