ImageBelgíska Kongó eftir Braga Ólafsson gekk fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu síðasta vetur, en verkið var frumsýnt vorið 2004. Eggert Þorleifsson fékk Grímuverðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á hinni fjörgömlu Rósalind. Leikhópurinn mun nú leggja land undir fót og sýna 2 gestasýningar hjá Leikfélagi Akureyrar, föstudaginn 30/9 og laugardaginn 1/10.
  Image

Bankastarfsmaðurinn Rósar og amma hans Rósalind hafa ekki talast við í sjö ár.  Einn daginn ákveður Rósar að það sé orðið tímabært að sættast og fá hin gömlu og tilefnislausu leiðindi út úr heiminum.  En það á eftir að koma í ljós hvort jafn óskylt fólk og skyldmennin sem um ræðir hafi nokkuð hvort við annað að segja.
 
Auk Eggerts leika í sýningunni: Ilmur Kristjánsdóttir, Ellert A. Ingimundarson og Davíð Guðbrandsson.
 
Lýsing:  Kári  Gíslason. Búningar: Stefanía Adolfsdóttir. Leikgervi: Sóley  Björt Guðmundsdóttir. Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson.  Hljóð og tímavörður: Finnbogi Pétursson. Leikstjóri: Stefán Jónsson.
 
Páll Baldvin Baldvinsson sagði í gagnrýni sinni í DV:
“Langt mál mætti skrifa um frammistöðu Eggerts og hástemmt lof á hann skilið fyrir verulega vandaða vinnu (…). Af hálfu höfundarins er þetta fallegt lítið leikrit, samið af innsæi og öruggum tökum skáldsins á persónum, hugmyndum þeirra og talfæri”.
 
Sýningartími er 1 klst. og 20 mín, ekkert hlé.