Verðlaunadansverkið Coming Up verður sýnt aftur einu sinni í nóvember í Tjarnarbíó í nóvember. Coming Up er samstarf tveggja danshöfunda og dansara, þeirra Katrínar Gunnarsdóttur og Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur. Verkið var frumsýnt árið 2013 í Tjarnarbíó og fékk frábærar viðtökur bæði áhorfenda og gagnrýnenda.Coming Up hlaut grímuverðlaunin 2013 í flokknum „danshöfundar ársins“ og var verkið tilnefnt til menningarverðlauna DV. Coming up hefur verið sýnt á danshátíðum víða í Evrópu. Aðeins er um eina sýningu að ræða á Íslandi þann 23. nóvember kl. 21.00 og því um að gera að tryggja sér miða sem fyrst.

Tveir danshöfundar ætla sér að skapa dansverk með fullkomnum hápunkti. Þegar á hólminn er komið eiga þeir erfitt með að dansa í takt, dansspor eru skilin eftir í lausu lofti, ein uppbygging tekur við af annarri, nýjar hugmyndir breyta stöðugt atburðarásinni og allar tilraunir til að skapa hinn fullkomna hápunkt renna út í sandinn. Í öllum hamaganginum týnist hið ógleymanlega augnablik. Eftir standa hönd í hönd hið risastóra og hið smávægilega, hið venjulega og hið mikilfenglega, antí-klímaxinn og klímaxinn.

Katrín Gunnarsdóttir lauk prófi í nútímadansi frá Listaháskóla Íslands árið 2006 og BA gráðu í danssmíði frá ArtEZ í Hollandi vorið 2008. Katrín var valin til að fylgja DanceWEB Scholarship prógraminu árið 2007 í Vínarborg undir handleiðslu Jonathan Burrows. Eftir útskrift hefur hún unnið víða sem dansari og höfundur. Sem dansari hefur Katrín unnið með Sögu Sigurðardóttur, Ernu Ómarsdóttur og Kris Verdonck ásamt fleirum. Katrín hefur einnig samið sviðshreyfingar fyrir leikhús (Toneelgroep Amsterdam, Theater Republique Copenhagen) og tónlistarmyndbönd (Ólafur Arnalds, Ásgeir). Hún situr í stjórn Félags íslenskra listdansara og hefur áður gegnt stjórnarstörfum fyrir Reykjavík Dance Festival og Sjálfstæðu Leikhúsin. Katrín er einnig með MS gráðu í heilsuhagfræði og vinnur sjálfstætt sem sérfræðingur og við rannsóknir.

Melkorka Sigríður Magnúsdóttir lærði danssmíði við SNDO í Amsterdam og samtímadans við P.A.R.T.S. í Brussel 2006-2010. Frá útskrift hefur Melkorka samið og dansað í ýmsum sviðslistaverkum hér á landi og erlendis og vann m.a. með belgíska danshöfundinum Wim Vandekeybus (UltimaVez) 2010-2012. Hún frumsýndi Glymskrattann, á Listahátíð í Reykjavík í samvinnu við Valdimar Jóhannsson og Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Skrattann úr Sauðarleggnum, sjálfstætt framhald í Þjóðleikhúsinu 2014. Hún var annar tveggja danshöfunda Vorblótsins, samstarfsverkefni Íslenska Dansflokksins, Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2013. Melkorka hefur samið sviðshreyfingar við ýmis leikrit og er danshöfundur leikverksins „Ekki Hætta að Anda“ sem verður sett upp í Borgarleikhúsinu í vetur. Hún er hluti af evrópska sviðslistabandinu John the Houseband sem dansar tónleika og syngur danssmíðar.

Sýningin er styrkt af menntamálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg og er í samstarfi við Dansverkstæðið.

Miðasala er á tjarnarbio.is og midi.is.