Sýning leikfélagsins Hugleiks, Hin einkar hörmulega ópera um grimman dauða Píramusar og Þispu, hefur verið valin til þátttöku á leiklistarhátíð Alþjóða áhugaleikhúsráðsins, AITA/IATA í Belgíu næsta sumar. Á hátíðinni verða sýningar frá öllum heimshornum, en hún er haldin annað hvert ár og er ein helsta hátíð áhugaleikhúshreyfingarinnar í heiminum.

Óperan er tónsetning á þætti úr Draumi á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare, en tónlistin er eftir Þorgeir Tryggvason. Fimm leikarar og þrír hljóðfæraleikarar taka þátt í sýningunni.

Þetta verður í þriðja sinn sem Hugleikur fær inni á hátíð AITA/IATA, en félagið sýndi Undir Hamrinum á hátíðinni í Mónakó árið 2005 og samstarfsverkefni Hugleiks og Leikfélags Kópavogs, Memento Mori, fór til Suður-Kóreu tveimur árum síðar.

Í ráði er að sýna nokkrar sýningar á óperunni þegar nær dregur hátíð.