Mikið líf, gleði og birta fyllir Litla leikhúsið við Sigtún þessa dagana en Leikfélag Selfoss er nú að komast á lokasprettinn með æfingar á Birtingi eftir Voltaire. Frumsýning verður föstudaginn 12. febrúar en æfingar hafa staðið yfir síðan í byrjun nóvember. Umfang sýningarinnar er mikið á flestum sviðum og gríðarleg vinna og óteljandi handtök að baki henni. Leikstjóri sýningarinnar er Ólafur Jens Sigurðarson en hann er uppalinn hjá Leikfélagi Selfoss og er að leikstýra þar í 4. sinn.

Notast er við leikgerð Hafnarfjarðarleikhússins sem unnin er upp úr snilldarlegri þýðingu Halldórs Laxness en þýðingin á einmitt 65 ára afmæli á þessu ári auk þess sem 250 ár voru frá því að sagan var gefin út upprunalega í fyrra, um þær mundir sem æfingar hófust á verkinu.

Alls eru 15 leikarar í sýningunni sem leika heil 76 hlutverk en búninga- og hárdeildir hafa unnið þrekvirki og saumað 76 búninga og safnað saman og unnið 20 hárkollur. Aðalhlutverkið, Birtingur sjálfur, er í höndum Brynjólfs Ingvarsson sem tók sér 10 ára frí hjá leikfélaginu, lék síðast langafa í Óvitum árið 2000 þá 8 ára að aldri og er endurkoma hans mikið fagnaðarefni. Auk leikaranna eru 5 sviðsmenn sem spila stórt hlutverk í þróun hinnar mjög svo lifandi leikmyndar í gegnum sýninguna. Alls koma 45 manns að sýningunni með einum eða öðrum hætti.

Það er mikið þrekvirki fyrir áhugaleikfélag að setja upp svo viðamikla og metnaðarfulla sýningu enda fjallar það um ótrúlegt en jafnframt spaugilegt ferðalag söguhetjunnar Birtings til ótal landa í 2 heimsálfum þar sem hann lendir í hinum ýmsu raunum og undarlegum aðstæðum. Það er því með stolti sem Leikfélag Selfoss bíður áhorfendur velkomna á frumsýningu þann 12. febrúar á hrífandi sýningu sem er hreint augnakonfekt fyrir áhorfandann.

Miðapantanir í síma 482 2787 og á leikfelagselfoss@gmail.com

{mos_fb_discuss:2}