Nemendaleikhúsið æfir nú lokaverkefni sitt Stræti eftir Jim Cartwright en frumsýning er föstudaginn 16. apríl n.k. í Smiðjunni við Sölvhólsgötu. Þessi útskriftarárgangur hefur vakið verulega athygli fyrir fyrri sýningar sínar í vetur, Eftirlitsmanninn eftir Gogol og Bráðum hata ég þig eftir Sigtrygg Magnason. Lokaverkefni þeirra er, eins og fyrr segir, breska leikritið Stræti eftir Jim Cartwright, einn af þekktari samtímahöfundum Breta. Leikritið kom fram fyrir rúmum tveim áratugum og sló strax rækilega í gegn og fór á fjalir leikhúsa víða um heim. Það skýtur alltaf upp kollinum öðru hverju og virðist alltaf eiga erindi.

Í verkinu er brugðið upp myndum af íbúum götu einnar í lítilli iðnaðarborg, þar sem fátækt og atvinnuleysi hrjáir íbúana. Leikritið gerist á einni kvöldstund og við fáum augnabliks innsýn í fjölbreytilega mannlífsflóru strætisins. Þar eru allir komnir í helgargírinn og eru staðráðnar í skella sér út á lífið þetta umrædda kvöld og sletta rækilega úr klaufunum. Enda fátt annað gerlegt í atvinnuleysinu og eymdinni en halda dauðahaldi í vonina um betri tíma. Við kynnust skrautlegum persónuleikum og fjölbreytilegu litrófi mannlífsins í þeirri blöndu af kaldhæðni, ljóðrænu og fyndni, sem einkenna höfundinn. Hann fjallar um persónur sínar af samúð og hjartahlýju og trúir því að allir eigi sér viðreisnar von. En til þess þarf sameiginlegt átak samfélags og þegna.

Í útskriftarhópnum er sjö verðandi leikarar, þau Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Jensson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Ævar Þór Benediktsson. Flest þeirra leika fleiri en eitt hlutverk í sýningunni,  því alls er hlutverkin hátt í þrjátíu talsins.

Þýðandi verksins er Árni Ibsen, um tónlist sjá Vala Gestsdóttir og Arndís Hreiðarsdóttir, lýsingu annast Björn Bergsteinn Guðmundsson og Páll Ragnarsson, búninga gerir Filippía Elísdóttir, leikmynd Vytautas Narbutas og leikstjóri er Stefán Baldursson.

Sýningar verða sem hér segir:
föstudagur 16. apríl – Frumsýning (Uppselt)
sunnudagur 18. apríl – 2. sýning
miðvikudagur 21. apríl – 3. sýning
fimmtudagur 22. apríl – 4. sýning
föstudgur 23. apríl – 5. sýning
laugardagur 24. apríl – 6. sýning
miðvikudagur 28. apríl – 7. sýning
fimmtudagur 29. apríl – 8. sýning
föstudagur 30. apríl – 9. sýning
laugardagur 1. maí – 10. sýning

Einungis verður um takmarkaðan sýningarfjölda að ræða og því ráðlegt að tryggja sér miða í tíma.

Miðasala fer fram á leiklist@lhi.is, í s: 895 6994 og á midi.is.
Einnig er miðasala sýningardaga í Nemendaleikhúsinu frá kl. 18.00 – 20.00.

{mos_fb_discuss:2}