Bernd Ogrodnik brúðulistamaður fékk nýverið úthlutað viðurkenningu Michael Meschke sem eru alþjóðleg verðlaun á sviði brúðuleiklistar. Verðlaunaféð eru 5.000 Evrur.
Bernd hlýtur viðurkenninguna fyrir að vera fyrirmynd fyrir nýjar kynslóðir þegar kemur að hæstu gæðum í handverki samþáttað við framþróun og endurnýjun á tækni og hönnun, til að ná fram aukinni hreyfilist hjá leikbrúðunum.
Michael Meschke hefur verið leiðandi nafn í heimi brúðuleiklistar í yfir 60 ár og haft mikil áhrif á þetta listform á alþjóðavísu.
Bernd sýnir nú sitt nýjasta sköpunarverk á sviði Þjóðleikhússins í Kúlunni en það er sýning byggð á hinu mikla bókmenntaverki “Gamli maðurinn og hafið” eftir Ernest Hemingway. Sýningin hefur hlotið gríðarlega góða dóma og er hver að verða síðastur að ná sér í miða áður en Bernd og kona hans Hildur M. Jónsdóttir halda til Kanada þar sem þau munu dvelja og byggja upp fyrirtæki sitt á næstu misserum.Bernd verður þó áfram með annan fótinn á Íslandi vegna góðrar samvinnu við Þjóðleikhúsið. Gamli maðurinn og hafið verður sett upp aftur í nóvember næstkomandi og Bernd mun mæta á ný í Þjóðleikhúsið á vormánuðum þar sem hann mun sýna leikhúsgestum Grímuverðlaunasýningu sína um hana Gilitrutt.
Að lokum má geta þess að Bernd verður með sýningu á Pétri og úlfinum í Eldborg, 9. september næstkomandi þar sem hann mun sýna þessa yndislegu brúðuleiksýningu undir lifandi tónlistarflutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.