Hugleikur leggur land undir fót í dag. Sýningu félagsins á leikritinu Útsýni eftir Júlíu Hannam hefur verið boðið á leiklistarhátíð sænska áhugaleikhússambandsins, ATR, í Västerås, sem fram fer 29. apríl til 4. maí. Leikstjórn Útsýnis er í höndum gamalkunnra Hugleikara, þeirra Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur, en þau hafa bæði starfað með leikfélaginu í yfir tuttugu ár. Hlutverkin fjögur skipa Elísabet Indra Ragnarsdóttir, Guðrún Eysteinsdóttir, Sigurður H. Pálsson og Þráinn Sigvaldason. Höfundur frumsaminnar tónlistar í sýningunni er Gunnar Ben.

Útsýni fjallar um samskipti tvennra hjóna, þar sem eiginmennirnir eru æskuvinir. Verkið er í tveimur þáttum og gerast þeir á heimili hjónanna Björns og Svövu með um árs millibili, en í báðum þáttum taka þau á móti vinahjónum sínum, Hlyni og Elínu. Í verkinu er fylgst með þeim umskiptum sem verða í lífi persónanna fjögurra, bæði vegna breytinga á félagslegri stöðu sem og í innbyrðis samskiptum. Þannig fjallar verkið um þanþol sannrar vináttu, traustið sem ríkir milli einstaklinga í hjónabandi, öfundsýki og sjálfsvirðingu.

Nánar um sýninguna hér
Nánar um hátíðina hér