Jólabækur leikarans
Nú eru allir líklega búnir að fá nóg af mærð um öll snilldarverkin á jólabókamarkaðnum. Í tilefni af því setti ég saman lista af tíu skemmtilegum bókum sem tengjast leiklist á einn eða annan hátt. Þetta er ekki listinn yfir tíu ómissandi bækur sem allir verða að hafa í fórum sínum. Hann kemur síðar. Hér eru fyrst og fremst á ferð skemmtilegar bækur sem koma að leikhúsinu úr ýmsum áttum, stundum næsta óvæntum. Tempest-toast Leikfélagið í Salterton hyggst setja upp Ofviðrið eftir Shakespeare og hinn rúðustrikaði gjaldkeri félagsins ákveður að nú sé komið að því að hann fái að spreyta sig á fjölunum. Afleiðingar þess eru einungis einn þráðurinn í þessari makalausu sögu eftir kanadíska sagnameistarann Robertson Davies. Íslenskir áhugaleikhúsmenn sem vilja kynnast bræðrum og systrum í Könödu ættu að lesa þessa bók. Acting up Þegar breska leikskáldið David Hare (Vilji Emmu, Bláa herbergið og Ofanljós) þreytti frumraun sína sem leikari í einleik sínum, Via Dolorosa, hélt hann góðu heilli dagbók yfir þessa nýstárlegu reynslu. Útkoman er aldeilis frábær greining á glímu leikarans, skrifuð af manni með innsæi sprottið af áratuga reynslu af leikhúsinu, en samt í sporum byrjandans. Shooting the actor Simon Callow kannast fólk líklega helst við í hlutverki glaðbeitta hommans sem deyr í Fjögur brúðkaup og jarðarför. Þessi stólpaleikari er líka snjall rithöfundur og þessi bók segir frá stormasamri samvinnu hans við júgóslavneska kvikmyndagerðarmanninn Dusan Makavejev...
Sjá meira