Þegar ég fyrir nokkrum dögum stóð og horfði á sýningu Stúdentaleikhússins á “Þú veist hvernig þetta er” velti ég fyrir mér afhverju ég væri ekki búinn að sjá svona sterka pólitíska satíru fyrr í íslensku leikhúsi. Ég man varla eftir neinu svona síðan á áttunda áratugnum. Afurðir ljósvakamiðlanna á þessu sviði hafa verið frekar í ætt við lélega þorrablótsskemmtun en snarpa þjóðfélagssatíru. Þótt að að þeir Spaugstofumenn hafi á stundum náð nokkrum hæðum , sérstaklega á fyrri árum sínum þá eru þeir, fyrirgefið orðbragðið, orðnir ansi úldnir í dag og skemmtiþættir Stöðvar 2 hafa nú meira snúist um hvað sömu þreyttu grínararnir eru fyndnir með allt niður um sig en alvarlega ádeilu á stjórnvöld. Og það er nú sorglegt að þegar menn tala um skopádeilu í útvarpi þá minnast menn útvarps Matthildar með þá Davíð Oddsson og Hrafn Gunnlaugsson í broddi fylkingar. Fyrr má nú rota. Það er ekki eins og vanti efnið í pólitíska háðið. Íslenskir stjórnmálamenn fara í stríð afþví að þeir vilja halda í þotu í Keflavík, grafa sundur hálft hálendið til að fá 1000 pólska verkamenn á Reyðarfjörð til að búa til álpappír, senda nauðugir syndugan borgastjóra heim en halda samt áfram í mann sem að sóaði milljörðum í rækjueldi og ljósleiðaralagnir. Og svo mætti halda lengi áfram. Og vei.. á þessu er tekið með silkihönskum á Íslandi nema af Stúdentaleikhúsinu. Þau rokka heldur betur.

Sýning Stúdentaleikhússins er revía byggð upp af mislöngum leiknum og sungnum atriðum. Leikhópurinn bregður sér í gervi ýmissa persóna, er jafnvel stundum hluti leikmyndarinnar og framkvæmir tónlist og hljóðmynd þegar þurfa þykir. Það er skemmst frá því að segja að sýningin var frábær skemmtun um leið og hún varpaði skýru ljósi á hin fáránlegu en alvarlegu mál líðandi stundar. Og þarna er skotið fast og vonandi þannig að einhverjum svíði undan. Ekkert er dregið undan, allt látið flakka. Textinn er fyndinn, útsmoginn, hæðinn, alvarlegur á stundum en alltaf einlægur. Hér er komið beint að hlutunum. Þarna er á ferðinni háð á heimsmælikvarða.

Leikstjórn og útlitshönnun sýningarinnar er í höndum Jóns Páls Eyjólfssonar og er hans vinna frábær. Leikurinn jafn og góður, tempó og stígandi frábær, andrúmsloft og leikmynd spennandi. Það verður gaman að fylgjast með honum í íslensku leikhúsi á næstu misserum. Leikhópur Stúdentaleikhússins er óvenju sterkur að þessu sinni og engin veikur hlekkur í hópnum. Samvinna hópsins var flott, skiptingar nákvæmar og tímasetningar góðar. Sniðug hugmynd að nýta útlendingana í hópnum í hárbeitta ádeilu á fordóma landans. Þetta er hópur sem þorir að taka áhættu og það er gaman að sjá leikhóp sem er tilbúinn til þess.

Einu aðfinnsluatriðin sem að ég gat fundið er að mér þótti áhorfendur dálítið afskiptir. Ég hefði viljað finna fyrir meiri áhættu, og vera á tánum allan tímann. Og í sýningu þar sem maður stendur á manni ekki leyfast að setjast á gólfið. Það er alltof kósý. En að þessu slepptu er revía Stúdentaleikhússins frábær skemmtun og sjónarspil og það ætti að vera skylda allra að mæta á sýninguna hjá þeim. Loksins, loksins, þarna eru einhverjir að stinga á kýli samtímans. Þrjár og hálf stjarna og aðeins hársbreidd í fullt hús.

Lárus Vilhjálmsson